Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Mín RIFF - partur 3

Ef einhvern myndi langa til þess, þá má:
sjá part 1 hér
og part 2 hér

Unmade beds
Fjallar um hústökufólk í London, stúlku frá París og strák frá Spáni. Stelpan lendir í ástarsambandi við strák sem hún veit ekki einu sinni hvað heitir og ákveður að halda því þannig, spánverjinn hefur upp á breskum föður sínum sem hefur aldrei haft neitt með hann að gera. Ástarsambandið hjá stelpunni þróast skemmtilega, en samband feðganna misvel. Pabbinn er fasteignasali og strákurinn þykist vera að leita sér að íbúð. Myndin var skemmtileg að sumu leiti, en skyldi frekar lítið eftir hjá mér.

Antoine
Antoine er 5 ára blindur strákur af víetnömskum uppruna sem býr í Montreal. Hann gengur í venjulegan skóla í skólakerfinu þar og fékk að hjálpa einum kennaranum sínum að búa til bíómynd. Í myndinni er hann einkaspæjari, sem keyrir bíl, talar í farsímann sinn og notar míkrófón til þess að uppgötva heiminn í kring um sig og hjálpaði þannig að taka upp hljóðið fyrir myndina. Myndin var einlæg og persónuleg, þó maður vissi aldrei alveg hvað væri planað, og hvað ekki, hversu mikið var leikið og hversu mikið ekki. En best er að líta á myndina sem einhverskonar heimildamynd um ævintýri barnaleiksins.

Victims of Our Riches
Fjallar í stórum dráttum á muninn á Afríku og Evrópu, ríkidæmið og fátæktina. Tekin eru viðtöl við fólk sem reynt hafa að smygla sér til Evrópu og mistekist, en einnig við aðstandendur þeirra sem tókst ætlunarverkið. Reynslusögurnar sem sagt er frá eru sterkar og um leið er sterk ádeila á stöðu heimsins í dag. Fín heimildamynd sem vill vera beitt en hefur kannski ekki alveg nógu margar tennur, þar sem lítið annað er sýnt en viðtöl.

Daytime Drinking
Gamanmynd frá Suður-Kóreu um mann sem er í ástarsorg eftir að kærastan hans hættir með honum. Félagarnir ákveð eitt kvöldið yfir öli að fara í smá ferð með hann daginn eftir, en þegar komið er á hólminn er hann sá eini sem mætir. Eftir fylgja sko ýmisleg ævintýri, flest stórskemmtileg fyrir áhorfendurnar. Sennilega fyndnasta myndin sem ég sá á hátíðinni, mæli með henni.

Grace
Var önnur miðnæturmynd hátíðarinnar, sýnd var á undan stuttmynd sem ég missti af. En Grace fjallar um ólétta konu sem missir manninn sinn og fóstrið í bílslysi. Hún ákveður þó að eiga náttúrulega fæðingu, og fyrir eitthvað kraftaverk fæðir hún lifandi barn. Smám saman kemst hún þó að því að þetta er ekki venjulegt barn sem hún eignaðist, sýgur eitthvað annað úr brjóstunum en móðurmjólkina. Myndin var þung og hæg, og ég var of þreyttur eftir fimm mynda törn um daginn til að finnast hún hræðileg. Ekki vel valin miðnæturmynd að mínu mati þrátt fyrir ógeðslega hugmynd, hefði verið betra að hafa eitthvað aðeins fjörugra.

Flickan
Sænsk mynd sem fjallar um stelpu sem er skilin eftir ein heima í húsi upp í sveit yfir sumar þegar foreldrar hennar og bróðir flytja til Afríku. Föðursystir hennar á að vera að passa hana, en stingur fljótlega af með einhverjum manni svo að stúlkan er alveg ein eftir. Hún leikur stundum við eldri stelpur úr nágrenninu og stundum við strák af næsta bæ sem er á hennar aldri. Svo fylgjumst við með hvernig 10 ára stelpu gengur að sjá um sig sjálfa í heilt sumar. Myndin gerist hægt en var samt áhugaverð og skemmtileg að mörgu leyti, og má hrósa krökkunum í aðalhlutverkunum fyrir náttúrulegar og eðlilegar frammistöður.

Stingray Sam
Furðulega skemmtilegur söngva-geim-vestri sem er settur saman úr sex 10. mínútna löngum myndböndum sem gætu allt eins verið gerð fyrir youtube. Cory McCabee, leikstjóri myndarinnar, hefur einmitt sagt að hún sé gerð fyrir skjái af öllum stærðum og gerðum. Þess vegna fannst manni hálfgalið að fara á hana í bíó. En ég meina, ég borgaði bara fyrir passann þannig að ég tapa engu á því. Og eftirá sé ég ekkert eftir að hafa séð hana. Stingray Sam er fyrrverandi fangi, núverandi barsöngvari frá plánetunni Durango. Fyrrverandi félagi hans, Quasar Kid, finnur hann og dregur hann með sér í ævintýri að leita að lítilli stelpu sem var rænt. Myndin er stórskemmtileg með litríkum persónum þó leiknu atriðin séu svarthvít. Inn á milli eru svo "tæknibrelluatriði" sem minna á teiknistílinn hjá Monthy Python. Best af öllu eru þó söngvaatriðin, sérstaklega lagið Fredward. Mæli með að fólk kíki á þetta, allavega fyrsta þáttinn má finna hér: http://www.stingraysam.com/

Dogtooth
Fjallar um grísk hjón sem alið hafa upp börnin sín þrjú í algerri einangrun frá umheiminum. Börnin, strákur og tvær stelpur, eru nú komin yfir tvítugt en hafa aldrei komið út fyrir háu girðinguna sem umkringir húsið þeirra og bakgarðinn. Tilveru þeirra er frá A til Ö stjórnað af foreldrum þeirra og þau vita ekkert um hinn ytri heim. Þegar köttur smyglar sér inn í garðinn er hann umsvifalaust drepinn, og þeim sagt að kettir séu stórhættulegir. Þegar hlustað er á Frank Sinatra syngja Fly me to the Moon á kvöldin er þeim sagt að það sé afi.

Pabbi þeirra er sá eini sem yfirgefur heimilið og fer hann til vinnu alla virka daga. Krökkunum er sagt að maður sé ekki tilbúinn til að yfirgefa heimilið fyrr en önnur augntönnin er dottin úr, og ekki tilbúin til að keyra bíl fyrr en hún vex aftur. Þeim er sögð sagan af eldri bróður þeirra, sem fór út áður en hann var tilbúinn, og getur aldrei komið aftur. Þegar þau halda að enginn sjái til kasta þau mat yfir girðinguna til hans. Planið fer fyrst að fara úrskeiðis þegar pabbinn hefur að taka heim með sér stúlku úr vinnunni til að svala kynferðislegum hvötum drengsins. Þó að myndin sé mjög róleg í framvindu sinni er hún alltaf óþægileg og jaðrar við að vera ógeðsleg. En vissulega áhugaverð, í ljósi þess að við  búum í tilveru þar sem sífellt eru að uppgötvast ný tilfelli á borð við Josef Fritzl eða Natascha Kampusch.

Úff.
Þarna var hátíðinni lokið og ég hafði blendnar tilfinningar. Þetta er í fyrsta skipti sem ég kaupi passa á hátíðina þó áður hafi ég reynt að fara nokkrum sinnum. Eftir þetta törn, 24 myndir á 10 dögum var ég alveg dauðuppgefinn og feginn að vera búinn, geta farið heim til mín. Sofið í rúminu mínu og hangið í tölvunni minni. Samt var ég alltaf að rekast á myndir og atburði sem ég hefði viljað sjá en missti af. Búninga-sýning í sal 1 á Rocky Horror! Sýning á One Flew Over the Cuckoo's Nest í hátíðarsalnum með Milos Forman viðstaddan! Bíó í sundi! Og fullt af myndum sem ég hefði viljað sjá en einfaldlega komst ekki yfir. En allt í allt var hátíðin hin besta upplifun.


Mín RIFF - partur 2

Með allt á hreinu
Önnur klassík, samt af öðrum toga en Mozart. Fór nú aðallega á þessa af því það er stuð að fara í bílabíó. Það var langt síðan ég hafði séð myndina og var gaman að rifja hana upp. Þó að ég kæmist að því að myndin er nú frekar innihaldslítil hvað varðar söguþráð bæta skemmtileg persónusköpun og svo öll þessi stuðmannalög upp fyrir það. Alltaf gaman að rifja upp klassíkina.
 
Zombie Girl                
Sennilega besta "gerð myndarinnar" mynd sem ég hef séð. Fjallar um  Emily, 12 ára stelpu í Austin Texas sem er óttalegur bíómyndaáhugamaður, sækir iðulega nördasýningar í hinu rómaða Alamo Drafthouse og er staðráðin að verða kvikmyndagerðarkona. Og hún er ekkert að tvínóna við hlutina, eftir að hafa gert nokkrar stuttmyndir ríður hún á vaðið með dyggri aðstoð móður sinnar og gerir myndina Pathogen, sem fjallar um vírusfarald sem breytir fólki í lifandi dauða.

En hún kemst fljótt að því að það er ekkert grín að gera kvikmynd. Framleiðslan tekur langan tíma, og tekur sinn toll á aðalleikarana, aðstandendur Emily og aðallega hana sjálfa og mömmu hennar. Hún lendir í ýmsum erfiðleikum, enda er erfitt að skipuleggja dagskrá fyrir heila kvikmynd þegar maður er tólf ára. Og auðvitað þarf hún að vinna heimavinnuna sýna eins og aðrir krakkar líka. En eftir meira en ársframleiðslu tekst henni að ljúka myndinni. Eftir að hafa séð þessa mynd, langar mann ekkert frekar en að geta horft á Pathogen.

Kelin
Er mynd frá Kazakhstan sem gerist í einhverskonar forsögulegum heimi, þar sem menn voru enn í meiri tengslum við náttúruna. Karlar eru sterkir veiðimenn, en konur eru göldróttar, enda búa þær yfir lífskraftinum. Fylgir aðallega sögu tveggja kvenna, ungri konu sem á að fara að gifta og menn keppast um, og eldri konu sem er mamma mannsins sem nær í kvenkostinn. Hún getur talað við úlfa og er voða göldrótt. Svo vindur sagan að sjálfsögðu upp á sig, en án orða, því í myndinni er ekkert talað. Því mun meira er af stunum, gráti hlátri, öskrum, og ýlfrum. Flott gerð mynd með ýmislegt að segja, en pínulítið kjánaleg á köflum, þegar öll samskipti fara fram með stunum.

Burma VJ
Fyrir tveimur árum lokuðu stjórnvöld í Búrma landinu. Þeir ráku alla fjölmiðla úr landi, klipptu á Internetið. Ástæðan voru mestu mótmæli sem herstjórnin þarna hafði upplifað í að minnsta kosti 20 ár. Burma VJ segir söguna af blaðamönnunum sem laumuðust með myndavélar á atburðina og smygluðu upptökunum úr landi. Myndin þótti mér mjög áhrifarík, segir persónulega sögu blaðamannanna og einnig sögu heillar þjóðar.  Það er stór munur á að sjá ofbeldi í leiknum myndum og alvöru ofbeldi, og því er hún ekki fyrir viðkvæma.  Myndin vakti upp spurningar, hvernig geta hermenn fengið sig til að skjóta á sína eigin þjóð, hvers vegna eru stjórnvöld svona grimm, og hvers vegna skilaði þetta ekki neinu. Því tveimur árum seinna situr sama herstjórnin við völd, byltingin var kæfð niður í fæðingu. Sá myndina tvisvar, einu sinni í norræna húsinu og nokkrum dögum seinna í sjónvarpinu á SVT. RÚV mætti alveg fylgja í fótspor þeirra.

Terra Madre
Ein af fáum myndum hátíðarinnar sem voru bara alls ekki fyrir mig. Ég styð boðskap myndarinnar heilshugar. Hún fjallar um matvælaframleiðendur sem skuldbinda sig til að vinna matvæli á sjálfbæran og ábyrgan hátt, í stað þeirra hátta sem við á vesturlöndum höfum tekið upp síðustu hálfa öldina eða svo. En því miður var myndin bara ruglingslega uppbyggð, var ekki mjög upplýsandi og endaði sem náttúrulífsmynd í garði eins garðyrkjumannsins í svona hálftíma. Kannski var ég eitthvað illa upplagður en mér fannst hún bara leiðinleg.

The Happiest Girl in the World
Rúmensk mynd sem fylgir 16 ára stúlku sem hefur unnið bíl í samkeppni appelsínsframleiðanda. Hún þarf að keyra úr sveitaþorpinu sínu með foreldrum sínum inn til borgarinnar að ná í bílinn, og leika í auglýsingu fyrir appelsínið. Ekki mikið meira gerist í þessari mynd. Framleiðendur auglýsingarinnar vita ekki hvað þeir vilja, og eru óánægðir með að stúlkan sem vann er ekki ofurmódel. Foreldrar hennar reyna á milli taka á auglýsingunni að sannfæra stúlkuna um að eiga ekki bílinn heldur selja strax, svo þau geti byggt við gistiheimilið sitt. Mörgum fannst myndin leiðinleg, og víst gerðist hún hægt, en undirliggjandi var einhver húmor sem tryggði að mér leiddist allavega ekki.

Konur á rauðum sokkum / Umoja
Tvær klukkustundarlangar myndir sem fjalla um kvenréttindabaráttu sýndar saman.  Umoja - þorpið þar sem karlar eru bannaðir fjallar um þorp í Kenía þar sem konur sem hlaupist hafa úr skipulögðum hjónaböndum og/eða verið fórnarlömb kynferðisofbeldis flýja til að stofna nýtt líf. Þar reka þær menningarsetur og gengur bara vel án karlanna. Sagt er frá tilurð þorpsins og átökum sem orðið hafa í kring um það, en karlarnir eru margir ekki sáttir með að það gangi svona vel. Konur á rauðum sokkum fjallar um sögu Rauðsokkuhreyfingarinnar rómuðu, og gerir það á skemmtilegan og líflegan hátt, með viðtölum við konur sem komu að hreyfingunni úr ýmsum áttum. Myndin fer vel yfir sögu og sýnir hve mikið samfélagið hefur í rauninni breyst síðan á áttunda áratugnum, en líka að við eigum alltaf að líta gagnrýnum augum á samtímann til að sjá hvort það er ekki eitthvað sem má bæta í samfélaginu, sérstaklega varðandi stöðu kynjanna en líka aðra þætti. Að vera sáttur við allt eins og það er getur verið hættulegt, og hindrar oft framþróun í rétta átt.

Mid August Lunch
Yndisleg lítil ítölsk mynd, um miðaldra mann sem býr einn með aldraðri móður sinni. Hannskuldar leigusalanum sínu margra mánaða leigu, en fær tilboð þess efnis að gæta aldraðar móður hans yfir einhverja ítalska hátíðisdaga og skuldirnar falli niður. Hann fellst á það, en fljótlega biðja fleiri kunningjar hans um sama greiða, og hann endar með fjórar gamlar konur í pössun. Það sem eftir fylgja eru ævintýri í léttum dúr, konunum kemur misvel saman, og hafa hver sína sérþörfina, með mataræði og lyfjagjafir, en einnig bara sjónvarpsáhorf. Myndin var stórskemmtileg, en mér þótti hún þó ekki alveg jafn skemmtileg og sumum í salnum, sem gerðu þetta á ítalskan máta (geri ég ráð fyrir) og höfðu rauðvínsglösin með sér inn.

sjá part 1 hér
og part 3 hér


Mín RIFF - partur 1

Dagana 17. - 27. september tók ég mér frí frá námsbókunum og öllu lífinu í stórum dráttum, til þess að mæta á alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Reykjavík. Ákvað að fara alla leið og kaupa mér passa, sem ég hef aldrei gert áður. En þá ætlaði ég líka að láta hann borga sig, og reyndi að fara eins oft í bíó og ég mögulega gat. Hér er stutt yfirlit yfir myndirnar sem ég sá á hátíðinni, um hvað þær voru, af hverju ég fór á þær og hvað mér fannst um þær.

Iskysset
Þessi fjallar um norska konu sem verður ástfangin af rússneskum hermanni sem hún hjúkrar í lok seinni heimstyrjaldarinnar. Samband þeirra vindur upp á sig, hún flytur til Moskvu og vinnur sem túlkur í sendiráði Moskvu. En hún lendir á milli steins og sleggju í kalda stríðinu og að lokum stendur hún frammi fyrir valinu um ástina eða föðurlandið.  Eins og heyrist á efnislýsingunni hefði alveg verið hægt að sjá fyrir dramatíska ástarspennumynd gerða úr þessum efnivið. En Ískossinn er lágstemmd og ljóðræn, falleg og persónuleg. En ekkert rosalega skemmtileg. Ég fór aðallega á myndina af því mig langaði að heyra norsku, en varð líka fyrir vonbrigðum með það; myndin er að miklu leyti á rússnesku.

Patrik 1,5
Sænsk gamanmynd í léttum dúr með alvarlegum undirtónum sem fjallar um tvo samkynhneigða karla sem flytja í fjölskylduhverfi og ætla sér að ættleiða barn. Sagan vindur upp á sig og enda þeir með 15 ára afbrotaungling sem er ekki par hrifinn af samkynhneigð. Myndin var vel sótt af allavega tveim hópum, Svíum og samkynhneigðum og var góð stemming í salnum. Óhætt er þó að segja að myndin eigi líka erindi til annara hópa því hún var fínasta fjölskylduskemmtun.

Applaus
Dönsk mynd með stórleikkonunni Paprika Steen sem leikur einhverskonar alter-ego af sjálfum sér, fræga leikkonu sem átt hefur í persónulegum erfiðleikum, drukkið eins og svín og misst forræðið yfir sonum sínum. Myndin fjallar um tilraun hennar til að ná stjórn á lífi sínu aftur og ná sér strik aftur í einkalífinu meðan hún heldur ótrauð áfram á leiksviðinu. Þetta var þung og alvarleg mynd, gerð í hálfgerðum dogmastíl með handheldum myndavélum og grófkorna filmu. En frammistaða Steen var það sem myndin stóð og féll með, og því er óhætt að segja að hún hafi verið glæsileg í sínu hlutverki og bjargaði myndinni frá falleinkun af minni hálfu allavega.

Dead Snow
Fjallar um 8 norska læknastúdenta sem fara í afskekkta "hyttu" lengst upp í fjöllum í páskafríinu sínu. Fljótlega fara að gerast drungalegir atburðir og þau heyra sögusagnir af sérlega grimmri nasistahersveit sem varð úti þarna í lok stríðsins. Óþarft er að taka það fram að mjög fljótlega láta nasistarnir sjá sig, og blóðið tekur að flæða. Eftir á hljómar það reyndar asnalega að segja það, en að það kom mér pínu á óvart að mynd sem fjallaði um nasistazombia tæki sig ekki meira alvarlega. Þó að myndin fylgdi leikreglum hryllingsmynda í ystu æsar, var hún alltaf meira fyndin en hræðileg og óhugnanleg. En það var í góðu lagi, eftir stendur fínasta splatter mynd, og sú frumlegasta hvað efnistökin varðar sem ég hef séð lengi.

For the Love of Movies
Er heimildarmynd um sögu kvikmyndagagnrýnenda, gagnrýninnar sjálfrar og stöðu greinarinnar í dag. Gerð af gagnrýnanda fyrir gagnrýnendur en er ekki mjög gagnrýnin á störf þeirra. Áhugaverð og nokkuð skemmtileg fyrir þá sem hafa á annað borð áhuga á viðfangsefninu, fjallað var um hvernig gagnrýnin hefði þróast á öldinni sem leið og hver staða hennar væri í samfélagi þar sem hver sem er getur sest við tölvu og skrifað sína eigin gagnrýni (svona eins og þetta). Tók myndin ansi afdráttarlausa afstöðu með atvinnugagnrýnendum, þeir hefðu meiri reynslu og dýpri skilning á miðlinum og þeirra rödd ætti skilið að vera sterkari en annarra. En gjáin á milli skoðunar gagnrýnenda og hins sauðsvarta almúga breikkar sífellt, og því verður erfiðara með hverju árinu að sjá hvert raunverulegt hlutverk þeirra er gagnvart almenningi.

The Rebel: Louise Michel
Frá Sólveigu Anspach kemur mynd um frönsku byltingarkonuna og anarkistann Louise Michel, sem send var ásamt fleiri skoðanasystkinum sínum til refsivistar á fanganýlendunni Nýju Kaledóníu. Fylgir myndin dvöl hennar þar, eilífri baráttu hennar við yfirvaldið þarna sem annarsstaðar. Hún neitar allri sérmeðferð fyrir konur, og berst ótrauð fyrir málstað sínum ennþá, hvort sem það er með bréfaskriftum til yfirvaldsins í Frakklandi eða rifrildum við prestinn á staðnum um greftranir og tilvist guðs. Hún kynnist háttum og menningu kanaka, frumbyggja eyjarinnar smátt og smátt, og verður vitni af og styður heilshugar blóði drifna baráttu þeirra fyrir aukinni sjálfsstjórn.Mér þótti myndin virkilega flott, útilitið trúverðugt og leikframmistöður góðar. Þá passaði myndin sig að víkja sem minnst frá sannleikanum og hélt sig frá "Braveheart leiðinni" sem hefði verið auðvelt að fara með efnið, en er trúverðugari fyrir vikið.

Amadeus
Þessi sker sig nokkuð úr hinum myndunum sem ég sá á hátíðinni, gömul og klassísk en ekki ný og óreynd, Hollywood framleiðsla en ekki sjálfstæð eða frá sjaldséðari löndum. Ég var samt að sjá hana í fyrsta skipti og sé ekki eftir að hafa gert það á hvíta tjaldinu. Myndin er náttúrulega meistaraverk. Fylgir hún síðustu árum Mozarts frá sjónarhorni biturs keppinautar hans, Antonio Salieri. Fléttan er epísk, leiktjöldin gullfalleg og frammistöðurnar eftirminnilegar. En til þess að njóta hennar fyllilega er mikilvægt er að taka myndinni sem það sem hún er; skáldskap. Eftir sýninguna mætti Milos Forman sjálfur upp á svið í stutta stund, og var gaman að heyra í karlinum, enda merkilegur maður. Þó er mér ljóst eftir að hafa heyrt þetta, mætt á "masterklassann" hans, og lesið nokkur viðtöl að hann er alvanur því að fá sömu spurningarnar aftur og aftur og gefur svör í samræmi við það.

Lourdes
Fjallar um konu sem er lömuð neðanfrá öxlum og fer í hópferð til Lourdes, þar sem er rekinn einskonar Kaþólskur kraftaverka-ferðamannaiðnaður. Hún bíður í röðum til að fara í bað úr kraftaverkavatni, fylgist með hjúkrunarkonunum gera sér dælt við sjálfboðaliðana á staðnum, og fær sjálf augastað á einum þeirra. Það þarf ekki að segja frekar frá því að eina nóttina stendur hún upp úr rúminu sínu og fer að greiða sér. Eftirköstunum af því er áhugavert að fylgjast með. Allir virðast hafa mestar áhyggjur af því hvort að kraftaverkið verði tekið gilt, hvort um varanlegan bata sé að ræða, eða hvort lömun hennar hafi verið af þeim toga að þetta teljist ekki sem raunverulegt kraftaverk. Sjálf er hún spurð hvað hún hafi gert, hvað hún hafi fundið þegar það gerðist o.s.frv. En það er ekki víst hvort hún bjóði upp á nein patentsvör.  Myndin var virkilega áhugaverð, vakti upp spurningar um trú og þessi kraftaverk yfirleitt. Mér fannst líka gaman að sjá Sylvie Testud í annari myndinni á tveim dögum, hún lék líka titilhlutverkið í Louise Michel. Góð frammistaða í báðum hlutverkum.

sjá part 2 hér
og part 3 hér


Smá leiðrétting varðandi sýningu RIFF á Rocky Horror

Í frétt mbl.is stendur að sýningin hafi verið færð í "stóra salinn" sem ég tók strax sem 970 sæta viðhafnarsalinn í Háskólabíó sem í daglegu tali er kallaður stóri salurinn. Ég fór í miðasöluna og spurðist fyrir, og hið rétta er að sýningin var færð í Sal 1, sem tekur tæplega 300 manns, og það er strax orðið uppselt þangað líka :(

 Þetta var án gríns á listanum yfir þá hluti sem ég ætla að gera á lífsleiðinni og ég hef ekki sett margt á þann lista. Virkilegt svekk að missa af þessu. Vonum þá bara að þetta verði gert aftur!


mbl.is Frank N. Furter færður vegna fádæma eftirspurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorglega léleg blaðamennska

Fyndið hvernig íslenskir blaðamenn virðast apa upp tilhæfulausar fréttir úr bresku gulu pressunni og birta án nokkurs fyrirvara um uppruna þeirra. Maður hefur reyndar oftar rekið sig á svona vinnubrögð á visir.is, en þetta virðist vera lenska í stéttinni.

Nýjasta dæmið og kornið sem fyllti mælinn svo ég nennti að byrja að nöldra hérna er þessi "frétt" um að Megan Fox muni leika kattakonuna í næstu Batman mynd. Mbl birtir engar heimildir fyrir fréttinni, en ljóst er að hún er öpuð eftir þessari frétt sem The Sun birti um daginn. The Sun, er einna alræmdast bresku götublaðanna, og stundar það iðulega að kokka upp tilhæfulausar fréttir til að selja blöðin sín.

Allir sem fylgjast eitthvað með kvikmyndaiðnaðinum sjá það um leið að þessi frétt er uppspuni frá rótum, og stenst engan veginn. Fyrir það fyrsta er þriðja Batman myndin ennþá algjör óvissa. Handritsvinna er lítið sem ekkert hafin, hvað þá er byrjað að ráða í hlutverk. Ekki er víst hvort að leikstjórinn Christopher Nolan snýr aftur, en ef hann gerir það eins og "fréttin" heldur fram er mjög hæpið að myndin komi út sumarið 2011 eins og "fréttin" heldur líka fram, hann er uptekinn að vinna í annari mynd, Inception, alveg fram á næsta sumar. Þannig að halda því fram að Fox hafi verið ráðin er algjör fásinna. Reyndar er jafn heimskulegt að segja að áður hafi verið talið að Angelina Jolie fengi hlutverkið, það voru jafn ósannir orðrómar. Það er ekki einu sinni víst að þetta hlutverk verði í myndinni, það er ekki byrjað að skrifa handritið.

Ég er svosem ekki að banna að fjallað sé um óstaðfesta orðróma í fréttum. En það þarf þá að koma fram í fréttinni, eins og gert er í þessari frétt frá kvikmyndir.is

Ég tek eftir þessum gríðarlegu rangfærslum í fréttum sem ég hef pínulítið vit á, um framleiðslu kvikmynda. En maður hlýtur að spyrja sig, er þetta svona í almennum fréttaflutningi líka, um hluti sem ég hef ekki vit á? Er etv. verið að hafa okkur að fífli hvað eftir annað í fréttunum? Ég hef til dæmis ekkert vit á efnahaginum, má ég semsagt búast við því að fréttir af þeim vettvangi séu jafn uppfullar af kjaftæði og rangfærslum og fréttir mbl.is úr kvimyndaiðnaðinum eru? Eða er staðreyndin bara sú að blaðamenn netmiðlanna bera enga virðingu fyrir því verkefni sem þeir hafa fengið, að skrifa fréttir í léttari dúr úr skemmtanaiðnaðinum, og finnst þarafleiðandi í lagi að birta bara hvaða rugl sem er?


mbl.is Leikur Kattarkonuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bíósumarið 2009

Eins og alþjóð veit er aðalvertíð kvikmyndaveranna sumarmánuðirnir, þar sem stærstu og dýrustu verksmiðjumyndunum er dælt út með fárra daga millibili. Mig langaði að renna yfir hvernig bíósumarið hefur verið þetta árið, hvernig myndum hefur verið tekið og hvað mér fannst um þær, án þess að spilla þeim fyrir þeim sem sáu þær ekki. Auðvitað fer ég ekki yfir allar myndir sem komu út á tímabilinu, heldur nefni helstu stórmyndirnar, góðar og slæmar,  óvæntustu smellina og óvæntustu floppin. Allt frá mínum bæjardyrum séð að sjálfsögðu.

Stórmyndasumrin geta verið mjög misjöfn að gæðum. Til dæmis fannst mér 2008 í stórum dráttum mjög gott sumar, þar við sáum vel heppnaðar og skemmtilegar poppkornsmyndir eins og The Dark Knight og Iron Man slá í gegn (ásamt reyndar Mamma Mia og Sex and the City sem ég á báðar eftir að sjá). 2007 fannst mér aftur á móti lélegt bíósumar, tölvubrellumyndirnar Spiderman 3, Pirates of the Caribbean 3 og Transformers áttu sumarið þó þau væru hundleiðinleg og illa skrifuð. En það sem mig langar að finna út er hvar árið 2009 passar í þessu dæmi.

Wolverine
Segja má að sumarið hafi byrjað í lok Apríl þegar sjálfur Jarfi eða Wolverine kom í bíó í sinni fyrstu sólómynd, sem gerist á undan X-men myndunum víðfrægu. Sagt er frá hvernig hetjan varð til og fékk einkennisbúnað sinn, stálklærnar ógurlegu. Þessi mynd er gott dæmi um það sem hrjáði margar af stærstu myndunum í sumar, nefnilega handritshöfundaverkfallið vestra 2007-08. Handritið hékk illa saman, og auk þess var greinilegt að henni var flýtt í framleiðslu til að ná að koma henni í bíó í tæka tíð. Leikarar stóðu sig ágætlega og pössuðu vel við persónurnar úr myndasögunum, en þeim var bara ekki gefinn nógur efniviður að moða úr í sundurhangandi handriti. Hasaratriðin voru flott en innantóm þar sem þau þjónuðu litlum tilgangi í heildarsögunni.

Gagnrýnendur tóku myndinni kuldalega en það sama er ekki hægt að segja um áhorfendur, sem flykktust í bíó. Vert er að athuga að þó að myndin hafi lekið á netið í fullum gæðum rúmum mánuði fyrir frumsýningu, virtist það ekki skaða aðsóknartölur á nokkurn hátt. Þannig er tryggt að fleiri myndir um kappann eru skammt undan, og sagt er að hann sé á leið til Japans. Vonum bara að þær verði vandaðri stykki.

Star Trek
Næstu helgi, 8. maí, þaut Star Trek upp á bíótjöldin eftir langa bið, en henni var frestað frá jólum 2008 eingöngu vegna þess að Paramount vantaði stórmynd fyrir sumarið. Þetta er endurhugsun á klassísku Trek þáttunum með Kirk og Spock í aðalhlutverki, framkvæmd af J.J. Abrams, gulldreng Hollywood um þessar mundir. Segir myndin frá því hvernig áhöfnin kom saman fyrst á stjörnuskipinu Enterprise NCC-1701 en við nokkuð breyttar aðstæður, tilkomnar vegna tímaflakks eins áhafnarmeðlimsins.

Myndin var að mínu mati fyrirtaks dæmi um akkúrat hvernig sumarmyndir eiga að vera. Persónurnar eru skemmtilegar og vel uppbyggðar, hvort sem þú hefur séð gömlu þættina eða ekki, húmorinn í myndinni er mikill og hasaratriðin vel heppnuð. Útlitsvinnan er gríðarlega flott sem og tónlist og tæknibrellur myndarinnar. Allt þetta gerir það auðveldara að kyngja veikari punktum myndarinnar eins og ekkert alltof sterkri sögu.

Gagnrýnendur og áhorfendur voru á einu máli um þessa mynd, stórskemmtileg var hún, og fékk því fína dóma og græddi fullt af pening. Reyndar er vert að athuga að hún var mikið vinsælli í kvikmyndahúsum innan Bandaríkjanna en utan þeirra. Við megum eiga von á framhaldi von bráðar.

Angels & Demons
Angels & Demons var stærsta myndin í kvikmyndahúsum helgina eftir það. Myndin er einskonar framhald af The Da Vinci Code og fjallar um þegar "táknfræðingurinn" og háskólaprófessorinn Robert Langdon er kallaður til Vatíkansins, vegna dularfullra hvarfa fjögurra kardínála. Fléttast innbrot til CERN, fremstu vísindastofnunnar Evrópu fljótlega inn í myndina og úr verður hörkuspennandi eltingarleikur í kapphlaupi við tímann. Eða var það allavega í bókinni. Kannski að ég sé ekki fullkomlega hlutlaus þar sem ég hef lesið bókina, en myndin var bara engan vegin sá spennutryllir sem hún átti að vera. Angels & Demons

Gagnrýnendur voru nokkuð sammála um að hér væri á ferðinni flott gerð og vel leikin, en bragðdauf útgáfa af sæmilegri spennusögu. Myndinni gekk sæmilega í bíó en var þó langt frá því að ná tekjum í líkingu við The DaVinci Code. Um 2/3 af tekjum myndarinnar komu úr kvikmyndahúsum utan Bandaríkjanna, sem telst frekar mikið. Framhald er í vinnslu, en það verður byggt á næstu bók Dan Brown, The Lost Symbol sem gerast á í Washington og snúast um Frímúrara. Ég bíð spenntari eftir bókinni en myndinni.

Terminator SalvationTerminator Salvation
Fjórða Terminator myndin kom í bíó í lok maí í Bandaríkjunum, í byrjun Júní hér á klakanum. Myndin gerist árið 2018 þegar vélarnar hafa tekið yfir heiminn eftir kjarnorkuárás. John Connor leiðir andspyrnuhóp gegn vélunum og telur sig hafa fundið leið til að klekkja á kerfi þeirra. Á sama tíma vaknar
fanginn Marcus Wright upp, en hann man síðast eftir sér við sína eigin aftöku árið 2003. Væntingar manna höfðu verið misjafnar. Fjarvera Schwartzeneggers og McG, leikstjóri Charlies Angels myndanna, fór í suma en sjálfur var ég bjartsýnn um góða hasarmynd, og finnst að myndin hafi að mörgu leyti uppfyllt þær væntingar mínar.  En þó að hasarinn, útlit myndarinnar, og frammistöður flestra leikaranna hafi verið mjög flottar, skinu vankantar handritsins alltaf í gegn, sérstaklega þegar leið á lok myndarinnar þar sem það virkaði nánast óklárað. Enn eitt fórnarlamb verkfallsins.

Segja má að viðtökur við myndinni hafi verið jafn misjafnar og væntingarnar. Flestir gagnrýnendur sögðu myndina illa skrifuð vonbrigði, en sumir slökuðu á kröfunum, slepptu því að bera myndina saman við forvera sína  og sögðu að hér væri ágætis hasarmynd á ferð. Myndin er dýrasta "sjálfstæða" mynd sem framleidd hefur verið, þ.e. mynd sem stóru stúdíóin framleiddu ekki sjálf heldur keyptu dreifingarréttin að. WB dreifðu myndinni í Bandaríkjunum, en Sony allstaðar annarsstaðar. Segja má að Sony hafi nælt sér í mun feitari bita þar.  Í Bandaríkunum var aðsókn langt undir væntingum en myndin gekk mun betur annarstaðar á hnettinum, jafnvel betur en stórsmellinum Star Trek.  Á prjónunum voru plön um framhald sem gerast átti í London samtímans, en óvíst er hvað úr verður vegna dræmrar aðsóknar í Ameríkunni.

The Hangover
En sumarið var engan vegin einokað af stórum hasarmyndum með vísindaskáldsöguívafi eins og þessi pistill minn gæti bent til. Gamanmyndirnar komu sterkt inn á milli, myndir eins og Night at the Museum 2,  Adventurland og Year One komu og fóru og gekk bara fínt.Hangover

En The Hangover er sennilega óvæntasti smellur sumarsins. Myndin fjallar um 4 vini sem halda til Vegas að steggja einn þeirra almennilega og fylgir svo kostulegum deginum eftir partíið þar sem þeir muna og skilja ekki neitt hvað gerðist kvöldið áður. Hvaðan löggubíllinn, ungabarnið og tígrisdýrið komu eiginlega og hvað varð af brúðgumanum sem á að fara að gifta sig daginn eftir. Mér og öllum öðrum fannst myndin alveg kostuleg, ferskur blær inn í gamanmyndasenuna og virkilega vel samsett mynd.

Þessi einfalda gamanmynd kom öllum gjörsamlega á óvart í sumar, fékk frábæra dóma (miðað við efniviðinn) og betri aðsókn en margar "Blockbuster" framleiðslur, situr í 5. sæti yfir mest sóttu myndir ársins ( þegar þetta er skrifað). Ótrúlega góður orðrómur frá þeim sem sáu myndina gaf henni lengri líftíma og því spilaðist hún mikið lengur í sumar en fjaraði ekki út strax eftir opnunarhelgina. Hinir áður frekar óþekktu aðalleikarar eru strax orðnir stórstjörnur með fullt af væntanlegum myndum á leiðinni, þó ekki svo uppteknir að þeir hafi ekki tíma fyrir Hangover 2, sem undirbúningur er hafinn á.

BrunoBrüno
Önnur helsta gamanmyndin í sumar var óbeina framhaldið af Borat, Bruno. Fjallar hann um tilraunir austuríska þáttastjórnandans Brüno til að verða frægur í Bandaríkjunum, og lærdóm hans á leiðinni um hvað til þarf til þess. Líkt og forveri sinn hneykslar myndin áhorfendur allasvakalega og er sprenghlægileg. Þó tókst henni ekki að vera jafn einlægt fyndin, né jafn skörp ádeila á hið vestræna samfélag og Borat þó vissulega séu þessir punktar til staðar í myndinni. Myndin fékk góða dóma, og ágætis aðsókn miðað við gamanmynd, en náði þó ekki að slá í gegn líkt og Universal hafði vonað, og var mun tekjulægri en stórsmellurinn Borat.

Transformers: Revenge of the FallenTransformers 2
Þá er upptalningin komin að best heppnuðustu mynd sumarsins, eða þeirri verst heppnuðustu, eftir hvernig er litið á það. Fjallar myndin um bresti í sambandi Sam og Mikaelu er Sam þarf að flytja að heiman til að fara í skóla. Í sömu andrá ber vond risavélmenni frá geimnum að og vilja þau endilega ráðast á jörðina. Þá er nú eins gott að hafa góð risageimvélmenni til að slást við þau. Transformers 2 ber þann vafasama heiður að hafa fengið verstu dóma allra tíma í hlutfalli við mestu aðsókn (skv. óformlegri könnun ). Myndin er krystaltært dæmi um þá gjá sem virðist vera á milli gagnrýnenda og áhorfenda.

Ég er sammála þeim fjölmörgu gagnrýnendum sem fannst myndin vera alltof löng sundurlaus runa af tölvugerðum vélmennaslagsmálum, með fáránlega ofleiknum og illa skrifuðum persónum og handriti sem greinilega var hent saman í eftirvinnslu myndarinnar til að kítta á milli hasaratriða (verkfallið aftur). Hér vil ég koma því að að ég er poppkornsmyndamaður, ég hef gaman að kjánalegum hasarmyndum sem taka sig mátulega alvarlega. Ég er ekki að reyna að hljóma eitthvað vitrænni en aðrir bíógestir en í fullri hreinskilni fannst mér myndin alveg hræðileg bíóupplifun. Hún stendur fyrir allt það sem er að í kvikmyndabransanum í dag. Hrein móðgun við mig sem áhorfanda.

En staðreyndin er sú að ég virðist vera í minnihluta þeirra sem borguðu sig inn á myndina. Margir vinir mínir virtust hæstánægðir með stykkið, og það talar sínu máli að hún er aðsóknarmesta mynd af því sem af er þessa árs. Það eina sem Hollywood hlustar eftir eru peningar, þannig að við megum búast við hrinu af svipuðum myndum á markaðinn á næstu misserum, auk T3 eftir svona 2-3 ár.

Harry Potter 6Harry Potter & The Half Blood Prince
Jafnvel galdrastrákurinn sjálfur gat ekki forðast áhrif handritshöfundaverkfallsins. Warner Brothers ákváðu að fresta myndinni um heila 8. mánuði, frá nóvember til júlí, og sagt var að það væri til að jafna bókhaldið milli ára. Batman græddi svo mikið 2008 að það hefði litið illa út fyrir 2009 hefðu þeir ekki haft álíka stórsmell í Júlí 2009.

Myndin fylgir 6. ári Harrys í Hogwartskóla. Harry og Dumbledore grafast fyrir um fortíð Voldemorts til að reyna að klekkja á honum, og unglingsástin tekur öll völd hjá krökkunum, með misskemmtilegum afleiðingum. Mikil fagmennska hefur fylgt seríunni í gegnum árin og er þessi mynd engin undantekning. Þó hugsar maður alltaf sem lesandi bókanna hvað betur hefði mátt fara, hverju var sleppt og hvað hefði mátt vera öðruvísi. Helst er það endir myndarinnar sem manni fannst hálf endaslepptur miðað við bókina. Eitt sem ég hef tekið eftir að ákveðið andrúmsloft sem var til staðar í fyrstu myndunum virðist hafa vikið. Hvergi sá maður drauga fara eftir göngum skólans, stigana sem breytast án fyrirvara eða öll málverkin pískra saman um það sem þau sáu. Nú litu gangarnir meira út eins og... gangar.

Annars þótti mér sem öðrum myndin mjög vel heppnuð. Hún fékk hörkugóða dóma og met aðsókn að vanda. Þannig að WB heppnaðist ætlunarverk sitt með að flytja myndina fram á sumar. Ein bók er eftir ókvikmynduð, en henni verður skipt í tvær myndi, sem koma eiga út í Nóvember 2010 og Júlí 2011.

Karlar sem hata konur.Karlar sem hata konur
Verandi kvikmyndanörd, hef ég yfirleitt lesið einhverja pistla og séð brot úr myndum löngu áður en ég sé þær, hef kynnt mér umfjöllunarefni þeirra og hvernig þeim hefur verið tekið.  Þegar ég fór á Karlar sem hata konur vissi ég nánast ekki neitt. Vissi að aðalleikkonan talaði íslensku, að bækurnar hefðu slegið í gegn eftir að höfundurinn dó og myndin ætti víst ekkert að gefa þeim eftir.

Það er svo góð tilfinning að láta koma sér á óvart. Ég bjóst helst við einhverju í ætt við Wallander þættina, en þetta var sko engin venjuleg sunnudagsglæpamynd.  Myndin fjallar um rannsóknarblaðamanninn Mikael Blomkvist sem  tekur að sér að rannsaka hvarf stúlku á sjöunda áratugnum sem aldrei var upplýst í Norður Svíþjóð. Á sama tíma kynnumst við Lisbeth Salander, ungum tölvusnillingi með vafasama fortíð, sem hefur verið ráðin til að fylgjast með Blomkvist. Fljótlega liggja leiðir þeirra saman er þau komast á sporið á drungalegri hlutum en þau óraði fyrir.

Myndin var gríðarlega vel heppnuð, allavega frá sjónarhorni þess sem ekki hefur lesið bókina. Spennandi, flott gerð, gott plott og gríðarlega sterkar leikframmistöður, sérstaklega frá Noomi Rapace sem hin dularfulla Lisbet. Þá hef ég sjaldan séð eins áhrifaríka og sláandi lýsingu á kynbundnu ofbeldi í kvikmynd, Silence of the Lambs er nánast barnaleikur miðað við þetta. Aðsóknin hefur ekki látið á sér standa frekar en bókakaupin, og er myndin sú mest sótta á norðurlöndum í ár. Gott dæmi um að myndir sem eru ekki frá Hollywood geta líka orðið vinsælar einstaka sinnum.  Ekki er löng bið eftir framhöldum, önnur myndin er væntanleg í september, og sú þriðja fyrir jól.  Þær voru gerðar allar í einu með því augnamiði að vera sýndar í sjónvarpi, sem betur fer sá einhver meiri möguleika í efninu áður en svo fór.

Public Enemies.Public Enemies
Frá Michael Mann, leikstjóra Heat og Miami Vice kemur enn ein löggu og bófa myndin. Í þetta skiptið gerist hún í kreppunni miklu og fjallar um bankaræningjann John Dillinger og baráttu hans við laganna verði. Myndin er byggð á sannsögulegum atburðum, en fer víst nokkuð frjálslega með atburðarrásina. Það skemmir þó ekkert fyrir skemmtanagildinu. Myndin er hröð og lifandi þó hún sé nokkuð löng, og frammistöður leikaranna eru til fyrirmyndar, með Depp í fararbroddi og hin franska Marion Cotillard stelur öllum senum sem hún er í. Helst hefur Christian Bale úr litlu að moða sem laganna vörður að eltast við Dillinger. Útlitið er hrátt og raunsætt en myndin er tekin með HD videovélum í stað filmu, sem skilar öðruvísi tilfinningu. Margir voru efins um þetta útlit kvikmyndarinnar en ég tel það hafa heppnast mjög vel.

Myndin fékk ágætis aðsókn og blendna dóma, enginn stórsmellur að hvorugu leyti en gekk bara ágætlega.  Það var hressandi að sjá fína sumarmynd til tilbreytingar sem ekki er hluti af einhverskonar seríu, framhald, endurgerð, eða með framhöld væntanleg. Þó megum við auðvitað búast við nýjum verkefnum frá öllu gæðafólkinu sem tóku þátt í að gera þessa mynd.

Drag Me to Hell.Drag me to Hell
Hryllingsmyndir voru ekki stórar í sumar frekar en önnur sumur, endurgerðin af The Last House on the Left kom í maí, og sennilega einhverjar fleiri sem ég man ekki eftir. Ég hef ekki haft mikinn áhuga á þessari gerð af myndum en sú sem stendur algjörlega uppúr eftir sumarið er Drag Me to Hell. Myndin er endurkoma Sam Raimi í hryllingsgeirann eftir langa fjarveru, og fjallar um Christine Brown, unga stúlku er vinnur sem lánafulltrúi í banka. Hún er að vonast eftir stöðuhækkun, og neitar gamalli sígaunakonu um endurfjármögnun á húsnæðisláni sínu. Það hefði hún ekki átt að gera.

Á mig virkaði þessi mynd algjörlega. Þó hún sé nú ekki uppfull af frumleika þá nýtir hún klisjur hryllingsmyndageirans til hins ýtrasta og er einfaldlega stórskemmtileg. Maður hoppaði um í sætinu við bregðuatriðin hefðbundnu en á sama tíma var maður oft skellihlæjandi yfir aðstæðunum sem aumingja stelpan lendir í. Myndin fékk mjög góða dóma og var hyllt sem skemmtilegasta hryllingsmyndin í lengri tíma. Því miður fékk myndin heldur dræma aðsókn, fólk virtist ekki hlusta á ráðleggingar gagnrýnenda frekar en fyrri daginn. Í þessu tilviki fannst mér það synd.

BasterdsInglourious Basterds
Þá er komið að síðustu myndinni á þessum grófa lista. Inglourious Basterds gerist í seinni heimstyrjöldinni eins og Quentin Tarantino sér hana fyrir sér. Þar segir annarsvegar frá liði bandarískra hermanna af gyðingaættum sem sendir eru inn í Frakkland til að valda vandræðum og einfaldlega drepa eins marga nasista og þeir geta. Hinsvegar fylgjumst við með Shosönnu, ungri stúlku af gyðingaættum sem býr í París undir fölsku flaggi eftir að fjölskylda hennar var myrt af nasistum 3 árum áður. Þessar fléttur og reyndar fleiri mynda svo eina epíska heild sem slær áhorfendur út af laginu eins og Tarantino einum er lagið.

Að horfa á Tarantino mynd í fyrsta skipti er alltaf ákveðin upplifun og þessi var engin undantekning. Sama hvaða væntingar maður hafði, þá kemur myndin manni á óvart. Ég er einn af þeim sem er hrifinn af nánast hverju sem hann tekur sér fyrir hendur og kolféll að vanda fyrir þessari mynd. Gagnrýnendur tóku myndinni feikivel, og áhorfendur virðast ætla að flykkjast á hana líka. Sem er eins gott fyrir framleiðendurna Weinstein bræður, myndin mun sennilega bjarga fyrirtæki þeirra, The Weinstein Company, frá gjaldþroti.

Aðrar myndir
Eins og ég segi er ég alls ekki að fara yfir allar myndi sumarsins, bara myndirnar sem ég sá og mér fannst vera merkilegastar. Myndir sem ég sá ekki voru t.d. barnamyndirnar, Ice Age 3 og G-force sem báðar voru í þrívídd. Allar rómantísku gamanmyndirnar sem eru oftar en ekki í öðru sæti aðsóknarlistans á eftir stóru hasarmynd vikunnar, The Proposal, Ghosts of Girlfriends Past osfrv. Örugglega ágætis myndir allt saman, en ég bara passa ekki inn í markhópinn. Það komu einstaka myndir sem ég hefði viljað sjá, t.d.The Hurt Locker, sem fékk fína dóma en fór framhjá áhorfendum (þar á meðal mér), en flestum myndum sem ég nefni ekki hér sleppti ég vegna þess að ég nennti ekki að sjá þær. G.I. Joe er ein þeirra, eftir Transformers 2 ákvað ég að mig bara langaði ekki að sjá fleiri svona myndir. Þó hafa margir sagt að Joe sé skárri en sú steypa, ég bara þori ekki að taka mark á þeim.

En hvernig var þá sumarið samanborið við önnur? Vissulega sáum við áhrif handritshöfundaverkfallsins í mörgum stórmyndunum, en í heildina litið kom þetta ágætlega út, bara hefðbundin blanda af skemmtilegum og vel skrifuðum myndum og svo þessum ekki eins vel skrifuðu en tæknibrellumiklu. Þó að vissulega standi myndir eins og Star trek, Hangover og Basterds uppúr sáum við engann smell á borð við The Dark Knight síðasta sumar, sem bæði áhorfendur og gagnrýnendur kolféllu fyrir. Ég myndi segja að þetta sumar falli mitt á milli 2007 og 2008, bara svona meðalgott. Annars er nú sennilega frekar þýðingarlítið að velta hlutunum svona fyrir sér, frekar bara mæta í bíó og reyna að skemmta sér. Ef einhver nennti að lesa alla leið hingað niður, hvering fannst ykkur sumarið, eruð þið sammála mínu áliti á myndunum?

 

Framhaldið
Í haust megum við svo eiga von á nokkrum "sumarmyndum" sem var frestað hér á Íslandi og ég ætla allavega að sjá myndir eins og Up, District 9 og Funny People þegar þær loksins koma. Svo eru kvikmyndahátíðir á næstu grösum, og svo jólavertíðin með sínum stórmyndum! Sjáum til hvort ég mun nenna að skrifa um það, ætli ég verði ekki byrjaður í skólanum og hafi annað að gera...


Röfl við Kaupþing

Meðfylgjandi er bréf sem ég sendi til míns viðskiptabanka, Kaupþings rétt í þessu. í ekkert alltof góðu skapi, og ákvað að tappa af svolitlu sem hefur verið að bögga mig alltof lengi:

Ég hef verið með mín viðskipti hjá ykkur í yfir 4 ár, lengst af hef ég verið með fyrirframgreitt kreditkort er nefnist "kortið". Allan þann tíma hef ég á u.þ.b. tveggja mánaða fresti fengið í merktum pósti auglýsingableðil þar sem þið reynið að selja mér vöru sem ég hef nú þegar keypt.  Ég hef leitt þetta hjá mér hingað til og kastað miðunum beint í ruslið en nú er komið nóg.

Til hvers eruð þið að þessu? Er þessi miði hugsaður sem tilkynning með nýjustu tilboðunum til að halda korthöfum við efnið? Af hverju eru lokaorðin þá "Sæktu um á www.kortid.is"? Eða eruð þið í blindni að senda svona merktan póst á alla í einhverjum ákveðnum markhópi sem ég fell óheppilega inn í? Er yfirhöfuð réttlætanlegt að banki sendi viðskiptavinum ruslpóst í merktum umslögum? Mun ég ekki enda á að henda umslagi sem hefur að geyma mikilvægar upplýsingar?

Ekki nóg með að þið séuð markvisst að eyða verðmætum tíma mínum og að láta höggva niður dýrmæta skóga fyrir þessar tilgangslausu og ómarkvissu auglýsingar, heldur gerið þið þetta allt á kostnað almennings, því íslenska þjóðin er jú að reka þennan banka eftir að þið tókuð þátt í að setja hana á hausinn. Ég held við höfum þarfari hluti að eyða pening í en þetta.

Hér með krefst ég þess að hætt verði að senda mér þessa tilgangslausu auglýsingapésa í merktum pósti. Fái ég aftur svona bréf mun ég segja upp mínum bankaviðskiptum hjá ykkur og þar með "kortinu" sem þið virðist reyna allt til að pranga inn á fólk.

Virðingarfyllst, Þorsteinn Valdimarsson


Nokkrar færslur á ári

Síðast skráði ég mig hér inn í haust, rétt eftir komuna heim frá Indlandi og sagðist ætla að skrifa meira um þá ferð um leið og ég hefði jafnað mig af magapestinni (sem ég fékk eftir að ég kom heim). Síðan hefur liðið dágóður tími og hefur mér tekist að halda mér uppteknum við ýmislegt annað en að skrifa þessa blessuðu ferðasögu. Helst ber að nefna að ég útskrifaðist úr Flensborg um jólin og hóf svo nám í heimspeki við Háskóla Íslands eftir áramótin (valdi nánast blindandi hvað skyldi sótt um). Svo hef ég verið á fullu í starfinu hjá Changmaker, og margt spennandi er að gerast í þeim málum. Opnuðum t.d. Loksins síðuna changemaker.is, þar sem við skrifum helstu fréttir um hvað gerist. Þess á milli hef ég svo tekið mér tíma til að fara óhóflega oft í bíó, þá oftast með honum Einari Erni góðvini mínum og drollað talsvert á internetinu. Þar er sko nóg að finna.

 

Nú er ég að hugsa um að byrja að skrifa aftur hingað inn á. Það verður allt mögulegt sem ég skrifa, sjáum bara til hvernig það gengur...


Kaldhæðni örlaganna

Á sunnudag snerum við aftur úr okkar mögnuðu Indlandsferð. Ferðin gekk eins og í sögu, ekkert sem ekki mátti klikka fór úrskeiðis. Við fengum passana okkar með áritunum í tæka tíð, misstum ekki af neinum flugum eða lestum, og veiktumst svo til ekki neitt. Það sem flestir höfðu haft mestar áhyggjur af var að maginn á okkur myndi ekki þola ferðina. Algengt er víst að ferðamenn þoli ekki breytt mataræði á suðrænum slóðum, eða jafnvel fái einhverja sýkingu sem getur fylgt heiftugur niðurgangur.  Við pössuðum okkur vandlega á mataræðinu og því sem við drukkum, og sluppum því blessunarlega við magakveisur. Við fögnuðum hverjum áfanga sem gekk áfallalaust, og á leiðinni heim vorum við farin að spyrja okkur hvort það ætlaði virkilega ekkert að klikka. Eftir sólarhrings flug heim var maður að vonum orðinn nokkuð sjúskaður. Tekið var á móti mér heima eins og ég hefði verið heimtur úr helju, veitingar trakteraðar fram og ég beðinn um að sýna myndir.

Svo komu slæmu fréttirnar. Hér var allt heimilisfólk með bullandi magapest! Ég lét mér fátt um finnast, og fór fljótlega að sofa. Mætti svo í skólann á Mánudeginum, próf og verkefni biðu. Á Þriðjudeginum var það orðið ljóst. Ég var kominn með skitu. Ó, grimmilegu örlög! Það er ekki til betri brandari, nýkominn heill af húfi úr tveggja vikna Indlandsferð, þarf að fara að snúa mér að skólanum, gera verkefni og mæta í tíma, og þá, þá fæ ég magapest. 

O jæja, það þýðir ekki að fást um það. Fékk allavega einar góðar fréttir í dag, Barack Obama var kjörinn forseti Bandaríkjanna. Það vekur lítinn vonarneysta í hjarta mínu. Ég skrifa meira um ferðina seinna, þarf að fara á klósettið. Þorsteinn


10 dagar

Jæja gott fólk nú er farið að styttast í ferðina. Ég held að ekkert okkar sé alveg að átta sig á því hvað 10 dagar eru fljótir að líða. Við erum unnum fyrir ferðinni. Keyptum miða. Fórum í sprautur. Töluðum við fók og kynntum okkur aðstæður. Búin að senda passana okkar og eyðublöð fyrir Visa inn í landið til sendiráðsins í Noregi. Reyndar ekki búin að fá þá til baka :S. Rúm vika til brottfarar. Samt er þetta eitthvað svo fjarlægt ennþá.

Maður er alltaf að komast að einhverju nýju. Um daginn var ég að hlusta á uppáhalds tónlistarmyndbandið mitt, Kaaluri Vanil með Prabhu Deva, einnig þekktur sem Benny Lava. Eitthvað fer ég að forvitnast, og viti menn, Goðið mitt, sjálfur Michael Jackson Indlands er frá Chennai, borginni sem við erum að fara til!!! Skoða ég meira, og kemur í ljós að í borginni er annar stærsti kvikmyndaiðnaður í Indlandi á eftir Bollywood, nefninlega Kollywood. Þannig er að tamílska er ráðandi tungumál á suður Indlandi sem gerir það að verkum að aðrar kvikmyndir eru framleiddar fyrir þá. Og ég er að fara til hjarta iðnaðarins, Kollywood! Þessi uppgötvun kætti mig gríðarlega, og ég svarði að eyða að minnsta kosti einum degi til að reyna að finna húsið hans og redda okkur eiginhandaráritun. En smám saman rann upp fyrir mér, við erum þegar með pakkaða dagskrá allan tímann. 2 vikur er alltof stuttur tími!

Svo er maður búinn að reyna að fylgjast með Sögu Indlands á RÚV. Það kemur á óvart hvað maður hefur gaman að því að horfa á þetta, virkilega vandaðir þættir. Síðasti (nr. 4) þáttur fjallaði um Indland eftir fall Rómarveldis. Þá urðu miðaldir, tími stöðnunar, í Evrópu, en gullaldarskeið á Indlandi. Á þessum tíma ríkti Chola veldið á suðaustur Indlandi og byggði ógrynninnin öll af flottum hofum og dóti. Við munum fara til Kanchipuram þar sem mörg þeirra fallegustu eru. Í þættinum var líka sýnt hvernig haldið var upp á ljósahátíðina Diwali þarna, sem mun bera upp meðan við erum úti. Fyrir þá sem hafa áhuga verður þátturinn endursýndur kl. 13:50 sunnudaginn 12. okt. En þetta er nú kannski ekki jafn spennandi fyrir fólk sem er ekki að fara þangað eftir viku.

Nú er það bara að byrja að pakka!


Næsta síða »

Höfundur

Þorsteinn Valdimarsson
Þorsteinn Valdimarsson
Hafnfirðingur, heimspekinemi, breytönd, kvikmyndanörd og nörd svona almennt séð
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

32 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.