Færsluflokkur: Bloggar
25.9.2008 | 00:55
Indlandsferð
Við fljúgum til Chennai sem er í Tamil nadu fylki. Hún er fjórða stærsta þéttbýlissvæði á Indlandi, og er staðsett sunnarlega á austurströnd Indlands við Bengalflóa. Þetta svæði kom mjög illa út úr Tsunami árið 2004. Þar í nágrenninu, í Kancipuram héraði, starfa samtökin Social Action Movement, sem hjálparstarf kirkjunnar er í samstarfi við. Þau einbeita sér að því að frelsa þrælabörn úr ánauð, og koma í veg fyrir að fleiri verði til. Þau starfrækja skóla fyrir börnin og halda einnig forvarnarnámskeið fyrir foreldrana. Við munum heimsækja þessi samtök skoða aðbúnað þeirra, og jafnvel reyna að hjálpa eitthvað til. Við verðum þarna í 2 vikur. Ég er farinn að sjá hvað það er allt of stuttur tími. http://www.socialactionmovement.com/
Hluta af tímanum munum við svo eyða í nágrenni Vijayawada, sem er borg í Andrah Pradesh fylki, um 700 km. norðar en Chennai. Borgin er við bakka árinnar Khrisna. Þar nálægt hefur UCCI, eða Sameinaða indverska kirkjan aðstöðu sína. Hún rekur þarna barnaskóla og lítið sjúkrahús og hefur verið í samstarfi við hjálparstarf kirkjunnar. Sjá meira um þessa staði á síðu hjálparstarfsins: http://www.help.is/?verkefni/indland
Við erum búin að undirbúa okkur talsvert. Tókum að okkur garðverk í vor, og ýmis hjáverk fyrir hjálparstarf kirkjunnar og fleiri. Erum búin að fara í sprautur og svona. Það er þó margt ógert. Eigum eftir að ráðfæra okkur frekar við aðra Indlandsfara, innheimta eitthvað af peningunum sem við unnum okkur inn, fá vegabréfsáritun, staðfesta áætlun okkar með þeim úti, og ýmislegt fleira. Svo eru litlu atriðin, byrja að pakka og gíra okkur upp saman. Við höfum samt verið að því ansi lengi. Undanfarið hef ég verið að grúska á netinu og kynna mér aðeins þessa staði sem við heimsækjum. Ég mun örugglega skrifa meira um það áður en við förum út.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2008 | 01:18
LOK
Kominn tími á að rjúfa þögn sumarsins. Það er haust, skólinn er byrjaður enn á ný, og ég hef mína (vonandi) síðustu önn í Flensborg. Það var eitt planað fyrir hana: afslöppun. Ég er að taka áfanga eins og afþreyingarbókmenntir, auglýsingasálfræði, matreiðslu og fornaldarsögu. Engan af þessum áföngum þarf ég til þess að útskrifast. Tók þá áhugans vegna. Að vísu er ég líka í Spænsku sem mun krefjast nokkurar einbeitingar. En þá er þetta líka komið. Hélt ég.
Það kemur í ljós að til þess að útskrifast þarf að ljúka litlum áfanga er nefnist LOK 171. Þangað mæti ég einu sinni í viku ásamt hinum 60 sem stefna á útskrift jólin 2008. -Ekkert mál. Þessi ágæti tími er á Miðvikudögum kl. 15:20. Nú er það ekkert verri tími en hver annar fyrir flesta, en ég væri annars búinn í skólanum kl 11:30 þennan dag. Ég varð því strax örlítið pirraður út í þennan tíma. -En allt í góðu. Í fyrsta tíma voru markmið áfangans útskýrð;
1. að skipuleggja og hrista saman hóp fyrir Dimmisjón,
2. að undirbúa nemendur fyrir lífið eftir framhaldsskólann.
-Ok. Síðan hlustuðu 55 manns á svona 5 manns tala um ekki neitt í klukkutíma þangað til það hringdi út. Nokkrir tímar hafa verið síðan þá, og þar var það sama var uppi á teningnum.
Er þetta virkilega nauðsynlegt? Það sem hingað til hefur komið fram í tímunum er að Dimmisjónin verði svaka stuð og fyllerí, og að við þurfum að byrja sem fyrst að safna sem mestum pening fyrir því. Síðan hafa verið fullt af kosningum, í hinar og þessar nefndir tengdar framkvæmdinni, um hvaða búninga við verðum í og hvernig fjáröflun er best að stunda. Gott og vel. Þeir sem hafa áhuga á svona skipulagningu og finnst þetta nógu merkilegt tilefni til að eyða tíma sínum og orku í, gjöriði svo vel. Hinir ættu að fá að leiða þetta hjá sér, sinna sínum skyldum, þrífa matsalinn nokkrum sinnum en ekkert meira en það. En þá er sett upp sérstök regla; ef þú missir af meira en 2 tímum af LOK, þá færð þú ekki að dimmitera, og ekki að útskrifast ef ég skildi þetta rétt. Ha? Hvað á þessi mætingafasismi að fyrirstilla? Tilgangslausasti tími annarinnar, sennilega tilgangslausasti áfangi sem ég hef nokkurntíman verið í, og útskriftin veltur á mætingu í hann? Það er margt skrýtið í kýrhausnum...
En svona er lífið bara. Maður verður að gera sér þetta að góðu. Mæta með kodda og sitja aftast. Kannski koma einhverjar áhugaverðar kynningar frá skólum inn á milli. Taka svo bara þátt í fjáröflunum og láta eins og maður hafi gaman að þessu. Dimmisjónin verður allavega svaka stuð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.5.2008 | 20:06
Sumar
Jæja. Nú er sumarfríið byrjað, við erum farin að sjá glefsur af sumarveðri, ég held að það sé óhætt að segja að sumarið sé komið. Ég byrja samt ekki í sumarvinnunni minni á róló fyrr en í Júní, þannig að ég fæ góðan tíma til að slappa af og jafna mig eftir prófin :). Annars held ég að ég muni vera slatta í sumarhreingerningum, bæði heima við, með Stebba bróður mínum heima hjá honum, og svo á hinum ýmsu stöðum með Breytöndum. Við erum nefninlega að safna okkur fyrir Indlandsferð, og tökum að okkur allskonar verk fyrir styrki. Ef þú hefur áhuga hafðu samband ;).
Annars er ég búinn að vanrækja þessa síðu mikið á þessu ári. Það er leiðinlegt, maður á ekki að reyna að halda úti svona síðu ef maður stendur ekki í því að uppfæra hana. Það er hvorki vegna þess að ég hafi svo yfirþyrmandi mikið að gera að ég hafi aldrei tíma til að setjast niður, né heldur vegna þess að ég hafi einfaldlega ekki haft frá neinu að segja síðastliðna 4 mánuði. Lífið hefur bara gengið sinn vana gang með fullt af skemmtilegum hversdagslegum atvikum sem letimókið hindraði mann við að lýsa. Annars er ég búinn að vera að fara alltof mikið til útlanda, maður verður nú að stilla því í hóf og reyna að vera umhverfisvænn
Norræna Samstarfsverkefnið hefur gengið mjög vel. Við breytendur, ásamt Changemaker í Finnlandi og Noregi, og Svenska Kyrkans Unga, erum að undirbúa sameiginlega herferð fyrir árið 2009. Fyrsti fundurinn var í Febrúar, í Sigtuna litlu þorpi fyrir utan Uppsala í Svíþjóð. þar kynntumst við samstarfsaðilarnir, ákváðum efni herferðarinnar sem mun fjalla um flóttamenn vegna hlýnunar jarðar. Svo settum við okkur heimaverkefni, að læra meira um efnið, hugsa mögulegar aðferðir við herferðina, hverjum ætti að beina henni að, hvernig hún yrði framkvæmd og hver markmið hennar yrðu. Næsti fundur var svo í Osló í lok apríl og þar stilltum við saman strengi okkar og suðum saman góða aðgerðaáætlun sem auðvitað á eftir að fara yfir. Þetta efni verður mjög spennandi að vinna með, það er mikið rúm fyrir umbætur. Loftslags flóttamenn er tiltölulega nýtt hugtak og ört vaxandi vandamál. Þó að margar mismunandi spár yfir tölur séu til er allavega ljóst að á næsta árhundraði mun vandinn aukast gríðarlega. Eins og staðan er í dag er ekki til opinber skilgreining á hugtakinu, og ekki er minnst á loftslagsflóttamenn í Genfar-sáttmálanum né í öðrum helstu mannréttindaritum. Því er fólk sem þarf að flýja heimili sín vegna loftslagsbreytinga í raun réttlaust og hefur ekki alþjóðlega viðurkenningu á vanda sínum. Eitt af markmiðum okkar verður að fá norræn stjórnvöld til að vinna saman að því að breyta þessu. Ég fer ekki nánar út í það núna, en vonandi sjáið þið öll herferðina árið 2009. Ferðirnar voru báðar skemmtilegar og ég og Andri fræddumst mikið um hnattræn málefni og skemmtum okkur vel.
Um páskana fór ég svo í svolítið öðruvísi ferð, til Ensku strandarinnar á Kanarí eyjum með fjölskyldu minni. Það var óneitanlega skrýtið að vera þarna í tilbúnu ferðamannaumhverfinu. Hver einasti matsölustaður, klúbbur og bar var með manneskju í vinnu við að lokka þig inn og Indverskir sölumenn í raftækjabúðum höfðu lagt það á sig að læra íslensku til að geta selt þér Panaskanik útvarp eða Polexx úr. En ströndin var góð og að sumu leiti skildi maður þá yfir 60 íslendinga sem hafa þarna fasta búsetu.
Annars er maður alltaf að rekast á skemmtileg myndbönd. Hér er lagið Kalluri Vaanil úr kvikmyndinni Pennin Manathai Thottu. Aðalleikararnir eru Prabhu Deva og Jaya Sheel. Auk þess hefur einhver fiktað og sett teksta undir með því sem að honum heyrist þau segja á ensku, og kemur skemmtilega út. Það er ekki meiningin að gera grín að flytjendunum, þetta er yndislega orkumikil tónlist sem kemur mér alltaf í gott skap.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.1.2008 | 01:07
Ehemm.
Svo byrjaði skólinn, og ég fékk troðfulla töflu af fögum sem ég þarf eiginlega ekkert að taka. Tók þátt í Gettu Betur fyrir Flensborg en við duttum út í fyrstu umferð á móti Kvennó af því ég mundi ekki hvað konan hans Norms í Cheers hét. (Vera). Slappt það. Svo stóðum við í Breytöndum fyrir gjörningi við setningu Alþingis um daginn, þangað mætti Hlýnun Jarðar í skrýmslabúningi og tók til við að sökkva kyrrahafseyju, sem var í kari þarna. Þingmennirnir tóku okkur afskapleka vel, en föttuðu samt ekki alveg allir að við vildum að þeir stoppuðu skrýmslið, en ekki að þeir hjálpuðu því að sökkva eyjunni. Það var samt okkur að kenna, við verðum að hafa næsta gjörning aðeins skýrari. Breytendur voru líka að opna síðuna www.breytendur.com, og mæli ég með að fólk kíki þangað inná og sjái hvað þetta snúist eiginlega um. Við erum alltaf að leita að nýjum meðlimum!
Svo er ég að fara til Uppsala á samnorrænt-þing Changemaker um helgina með Andra Guð góðvini mínum. Við ætlum að reyna að samræma stefnur og strauma okkar, og vera með öflugt samstarf milli landa í framtíðinni. Það verður nú fróðlegt að sjá. Best að fara að pakka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.11.2007 | 21:42
Akureyri
Helgina eftir var haldið í öllu fjörmeiri ferð með Nemendafélagi Flensborgarskólans, menningarferðina 2007. Vangaveltur höfðu verið uppi um hvort að þetta yrði í síðasta skipti sem farið yrði í slíka ferð, stjórnendur skólans ekki par hrifnir af því sem hún stendur fyrir. Á síðustu stundu leit líka út fyrir að ferðin yrði ekki farinn vegna þess að of margir höfðu hætt við sökum anna eða fjárhagsvandræða. En skipuleggjendum tókst á föstudagsmorgun að fá nógu marga í til að koma með, og var haldið af stað eftir hádegi. Eftir nokkurn akstur var á föstudagskvöldið farið beint úr rútunni á hrekkjavökuball á Sjallanum. Daginn eftir var svo vaknað alltof snemma og lýðurinn dreginn á flugsafnið. Svo fórum við í allsvakalega danskennslu, í jólahúsið, í sund og héngum á milli í herbergjum okkar á Hótel Norðurlandi. Við fengum pizzuveislu frá Bautanum með heilum 2 gerðum að pizzu ásamt kokteilsósu um kvöldið, og í kjölfarið af henni átti hópurinn svo góða kvöld- og næturstund við ýmis menningarstarfsemi.
Morguninn eftir (meira svona eftir hádegið) héldum við svo á stað í bæinn aftur í okkar langferðabíl. Eftir að kvikmyndasýning dagsins var búin, og við vorum komin í bæinn var okkur svo tilkynnt að við hefðum verið til algjörrar fyrirmyndar, og staðið okkur svo vel að ferðin verði farinn aftur á næsta ári. Húrra fyrir því.
En menntunin sjálf hefur örlítið gleymst í öllum látunum, það eru 4 eða 5 vikur eftir af skólanum og ætla ég að byrja að einbeita mér 100% að honum. Jæja, best að tékka hvað er í sjónvarpinu...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.10.2007 | 21:57
Jæja
Lífeðlisfræðinni hef ég meiri áhyggjur af. Þetta er áfangi sem ég verð að taka ætli ég að útskrifast á náttúrufræðibraut, og ég hef litla löngun til að sitja hann aftur. Ástæðan fyrir slöku gengi þar er ekki leiðinlegur kennari og erfið próf eins og maður vill svo oft trúa, heldur leti í sínu hreinasta formi. Ég þarf bara að fara að lesa og glósa þessa blessuðu námsbók betur, og þá kemur þetta. Vonandi.
Af skemmtilegri málefnum að segja fór ég á tónleikana með Ensími og Bloc Party í Flensborg núna á föstudaginn. Ég hafði haft smá áhyggjur af því hvernig stemningin yrði þarna inni, þar sem salan á miðum hafði af einhverjum fáránlegum ástæðum ekki gengið nógu vel, og lengi leit út fyrir að salurinn yrði ekki einu sinni fullur. Áhyggjur mínar reyndust óþarfar, ég skemmti mér konunglega. Þegar Ensími var að spila var salurinn reyndar frekar hikandi einhvernvegin, en þegar Bloc Party steig á svið varð allt vitlaust. Sú staðreynd að ekki einn einasti maður í húsinu var ölvaður skipti engu máli, maður tróðst og hoppaði eins og maður ætti lífið að leysa þrátt fyrir það. Hér er myndband af þeim frá glastonbury hátíðinni í júní síðastliðnum. Þó að það væru aðeins færri tónleikagestir í Hamarssal, sver ég að stemningin var engu minni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.9.2007 | 14:34
Myspace
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.9.2007 | 16:14
Ferðasaga / Jarðfræðiverkefni
Í vor þegar við í fjölskyldunni vorum að ræða hvert við skyldum halda í sumarfríinu, kom skemmtileg hugmynd upp. Við ákváðum að ekki skyldum við halda saman til útlanda þetta sumarið, heldur myndum við ferðast hér innanlands. Og Vestfirðir urðu fyrir valinu. Þannig var að ekkert okkar hafði komið til Vestfjarða áður, fyrir utan fjölskylduföðurinn, en hann hafði unnið eitthvað þarna fyrir 20 30 árum. Reyndar höfðum við áður ferðast aðeins um strandirnar, austan megin á kjálkanum og ákváðum því að sleppa þeim í þetta skipti.
Eftir að hafa tryggt okkur íbúð til leigu á Flateyri í eina viku, héldum við af stað á fimmtudegi í lok Júlí, keyrðum í Stykkishólm og tókum Baldur til Flateyjar. Þar gistum við í eina nótt hjá kunningsfólki okkar, og skoðuðum okkur um í eyjunni. Flatey er stærsta eyjan á Breiðafirði, en þar eru óteljandi eyjar sker og hólmar sem talið er að hafi myndast vegna afls skriðjökla á Ísöld. Þegar jökulfarginu létti svo, er talið að eyjurnar hafi risið úr sæ. Þjóðsögur segja hins vegar að eyjarnar á Breiðafirði hafi orðið til við mokstur trölla sem ætluðu sér að skilja Vestfirði frá meginlandinu.
Eftir að hafa skoðað þessa fallegu eyju, héldum við af stað aftur síðdegis á föstudeginum, og tókum Baldur að Brjánslæk, sem er á miðjum Barðaströndunum. Þær eru á sunnanverðum Vestfjarðakjálkanum, þar sem stuttir og grunnir firðir skerast inn úr Breiðafirðinum. Milli fjarðanna ganga svo háir og hrjóstrugir múlar. Undirlendi þarna er lítið en landslagið þó ekki jafn hrikalegt og annarsstaðar á Vestfjörðum.
Við keyrðum aðeins þarna í kring, en héldum svo í rólegheitum norðureftir, og vorum komin að Flateyri um kvöldið. Á leiðinni sáum við mesta foss Vetfjarða, Dynjanda sem er í Dynjandisvogi, en hann liggur fyrir botni Arnarfjarðar. Þar fellur áin fram af fjallsbrúninni niður nær 100 metra hátt bungumyndað berg með smástöllum. Bergið er myndað af hörðum hraunlögum og millilögum úr sendnum leir sem er mun mýkri. Mjúku millilögin hafa gefið eftir undan ágangi jökuls og síðar vatns og fossastigi hefur myndast.
Eitt aðaleinkenni vestfirska landslagsins eru þröngir og mjóir firðir með háum og bröttum fjöllum sem ganga víða í sjó fram, og þessu tók maður eftir þegar komið var á Flateyri. Hálendi Vestfjarða einkennist einnig af því hve flatt það er. Berggrunnurinn þarna er að mestu leyti úr hraunlögum, einkum basalti, en einnig finnast millilög úr molabergi sem myndast hefur úr lausum jarðlögum á borð við möl, leir, mold eða mó. Það má einnig finna eldfjallaösku og gróðurleifar í lögunum. Fyrir um 3 milljónum ára lagðist jökull yfir jarðlagastaflann, og átti mikinn þátt í því að móta landið eins og það er nú. Á þeim 10.000 árum sem eru síðan ísöld lauk, hafa svo roföflin haldið áfram að móta landslag svæðisins.
Þessa viku sem við vorum á Flateyri, gerðum við ýmislegt. Fórum niður á bryggju að veiða, löbbuðum upp að snjóflóðagarðinum og fórum líka mikið inn á Ísafjörð og alla hina bæina sem liggja þarna í kring. Með því eftirminnilega sem við gerðum var að fara í fjöruna við Holt í Önundarfirði. Það var í fínasta veðri, og allt í einu fannst okkur að við værum á sólarströnd einhverstaðar sunnar en á Vestfjörðum, og brugðum okkur í sundfötin og fórum í sjóinn. Hann var reyndar ekki eins heitur og á þeim sólarströndum sem ég hef prófað. En þetta var samt ótrúlega góður dagur, og merkilegt að þessi sandströnd skuli vera þarna, með svona fallegum gulum sandi og alles.
Við fórum líka í siglingu út í eynna Vigur, sem er önnur eyjan á Ísafjarðardjúpi. Hún er fyrir mynni Skötufjarðar og Hestfjarðar, um 2 km á lengd og tæpir 400 m á breidd. Þar var skemmtilegt að skoða náttúruna, fuglalífið, og svo það manngerða á eyjunni.
Eftir þessa viðburðaríku viku héldum við svo þreytt, en ánægð heim á leið. Þó að við hefðum séð margt skemmtilegt í ferðinni, er ótrúlega margt sem við skoðuðum ekki í þetta skiptið, Hornbjarg, Látrabjarg, og ýmislegt fleira. Það er því er alveg bókað að við munum heimsækja Vestfirði aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2007 | 19:36
Ber
Síðan við komum heim hafa svo öll berin í garðinum þroskast, rifsber sólber og stikilsber. Við tínum talsvert af þeim öllum, afi notar þau svo í sultugerðartilraunir ásamt rabarbara. Síðasta föstudagseftirmiðdag fór ég svo með afa upp í lönguhlíðar í berjamó. Þar tíndum við talsvert af bláberjum en minna af aðalbláberjum, sem afi segir að hafi verið mun meira af þarna í gamla daga. Ég finn nú lítinn mun á þeim, en afa finnst aðalbláberin mun betri. Hann telur þetta vera afleiðingu hlýnandi veðurfars, Aðalbláberjalyngið þurfi helst að hafa snjó yfir sér á veturna, en bláberjalyngið þoli snjóleysi betur. Þess vegna séu venjulegu bláberin að vinna á. Svona hafa nú gróðurhúsaáhrifin margþætt áhrif!
Svo er ég að lesa það núna í fréttablaðinu að bláber hafi verið skilgreind ofurfæða, einstaklega rík af andoxunarefnum, næringu og heilsubætandi efnum. Þau eru semsagt með hollari fæðutegundum sem finnast. Ég ætla að fá mér eina skál núna. Það er samt spurning hvort að sykurinn og rjóminn jafni þetta ekki út...
Bloggar | Breytt 28.8.2007 kl. 23:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2007 | 10:20
Sumarlok - Skóli
Ég fékk stundatöfluna mína í fyrradag, er búinn að ákveða að vera ekkert að flýta mér og taka stúdentinn á fjórum árum. Eða allavega þrem og hálfu. Samt er ég í alveg of mörgum áföngum, Stærðfræði 503 og 313, Líffræði 103 og 113, Jarðfræði 203, Sögu 483, Íslensku 503 og svo Spænsku 303, sem ég tek fyrir utan skólann. Samt tímdi ég einhvernvegin ekki að hætta í neinum þeirra, sumum vegna þess að það er gott að vera búinn með þá (stæ 503 og 313, Ísl 503, Líf 103) en sumum vegna þess að þeir eru áreiðanlega skemmtilegir ( Sag, Líf 113 og Jar)
Ég er byrjaður að lesa aftur, ótrúlegt en satt. Ég kláraði Harry Potter í snarhasti á Vestfjörðunum, og er svo búinn að lesa Flateyjargátu (skemmtilegt, því við komum við í Flatey) og er núna að lesa Dagbók Anne Frank. Svo þarf ég að lesa tvær bækur í Íslensku í vetur, er að hugsa um að fara ekki auðveldu leiðina og velja eitthvað sem ég hef þegar lesið. Þannig að lestrarhesturinn í mér er vaknaður eftir langa dvöl.
Ég veit ekki alveg hvert þessi síða er að stefna hjá mér. Í sumar skrifaði ég að meðaltali einu sinni í mánuði, - það var þegar ég hafði ekkert að gera. Hvernig ég ætla að halda þessu úti þegar ég er á fullu í skólanum veit ég ekki. Við sjáum hvernig þetta fer...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar