Leita í fréttum mbl.is

Mín RIFF - partur 1

Dagana 17. - 27. september tók ég mér frí frá námsbókunum og öllu lífinu í stórum dráttum, til þess að mæta á alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Reykjavík. Ákvað að fara alla leið og kaupa mér passa, sem ég hef aldrei gert áður. En þá ætlaði ég líka að láta hann borga sig, og reyndi að fara eins oft í bíó og ég mögulega gat. Hér er stutt yfirlit yfir myndirnar sem ég sá á hátíðinni, um hvað þær voru, af hverju ég fór á þær og hvað mér fannst um þær.

Iskysset
Þessi fjallar um norska konu sem verður ástfangin af rússneskum hermanni sem hún hjúkrar í lok seinni heimstyrjaldarinnar. Samband þeirra vindur upp á sig, hún flytur til Moskvu og vinnur sem túlkur í sendiráði Moskvu. En hún lendir á milli steins og sleggju í kalda stríðinu og að lokum stendur hún frammi fyrir valinu um ástina eða föðurlandið.  Eins og heyrist á efnislýsingunni hefði alveg verið hægt að sjá fyrir dramatíska ástarspennumynd gerða úr þessum efnivið. En Ískossinn er lágstemmd og ljóðræn, falleg og persónuleg. En ekkert rosalega skemmtileg. Ég fór aðallega á myndina af því mig langaði að heyra norsku, en varð líka fyrir vonbrigðum með það; myndin er að miklu leyti á rússnesku.

Patrik 1,5
Sænsk gamanmynd í léttum dúr með alvarlegum undirtónum sem fjallar um tvo samkynhneigða karla sem flytja í fjölskylduhverfi og ætla sér að ættleiða barn. Sagan vindur upp á sig og enda þeir með 15 ára afbrotaungling sem er ekki par hrifinn af samkynhneigð. Myndin var vel sótt af allavega tveim hópum, Svíum og samkynhneigðum og var góð stemming í salnum. Óhætt er þó að segja að myndin eigi líka erindi til annara hópa því hún var fínasta fjölskylduskemmtun.

Applaus
Dönsk mynd með stórleikkonunni Paprika Steen sem leikur einhverskonar alter-ego af sjálfum sér, fræga leikkonu sem átt hefur í persónulegum erfiðleikum, drukkið eins og svín og misst forræðið yfir sonum sínum. Myndin fjallar um tilraun hennar til að ná stjórn á lífi sínu aftur og ná sér strik aftur í einkalífinu meðan hún heldur ótrauð áfram á leiksviðinu. Þetta var þung og alvarleg mynd, gerð í hálfgerðum dogmastíl með handheldum myndavélum og grófkorna filmu. En frammistaða Steen var það sem myndin stóð og féll með, og því er óhætt að segja að hún hafi verið glæsileg í sínu hlutverki og bjargaði myndinni frá falleinkun af minni hálfu allavega.

Dead Snow
Fjallar um 8 norska læknastúdenta sem fara í afskekkta "hyttu" lengst upp í fjöllum í páskafríinu sínu. Fljótlega fara að gerast drungalegir atburðir og þau heyra sögusagnir af sérlega grimmri nasistahersveit sem varð úti þarna í lok stríðsins. Óþarft er að taka það fram að mjög fljótlega láta nasistarnir sjá sig, og blóðið tekur að flæða. Eftir á hljómar það reyndar asnalega að segja það, en að það kom mér pínu á óvart að mynd sem fjallaði um nasistazombia tæki sig ekki meira alvarlega. Þó að myndin fylgdi leikreglum hryllingsmynda í ystu æsar, var hún alltaf meira fyndin en hræðileg og óhugnanleg. En það var í góðu lagi, eftir stendur fínasta splatter mynd, og sú frumlegasta hvað efnistökin varðar sem ég hef séð lengi.

For the Love of Movies
Er heimildarmynd um sögu kvikmyndagagnrýnenda, gagnrýninnar sjálfrar og stöðu greinarinnar í dag. Gerð af gagnrýnanda fyrir gagnrýnendur en er ekki mjög gagnrýnin á störf þeirra. Áhugaverð og nokkuð skemmtileg fyrir þá sem hafa á annað borð áhuga á viðfangsefninu, fjallað var um hvernig gagnrýnin hefði þróast á öldinni sem leið og hver staða hennar væri í samfélagi þar sem hver sem er getur sest við tölvu og skrifað sína eigin gagnrýni (svona eins og þetta). Tók myndin ansi afdráttarlausa afstöðu með atvinnugagnrýnendum, þeir hefðu meiri reynslu og dýpri skilning á miðlinum og þeirra rödd ætti skilið að vera sterkari en annarra. En gjáin á milli skoðunar gagnrýnenda og hins sauðsvarta almúga breikkar sífellt, og því verður erfiðara með hverju árinu að sjá hvert raunverulegt hlutverk þeirra er gagnvart almenningi.

The Rebel: Louise Michel
Frá Sólveigu Anspach kemur mynd um frönsku byltingarkonuna og anarkistann Louise Michel, sem send var ásamt fleiri skoðanasystkinum sínum til refsivistar á fanganýlendunni Nýju Kaledóníu. Fylgir myndin dvöl hennar þar, eilífri baráttu hennar við yfirvaldið þarna sem annarsstaðar. Hún neitar allri sérmeðferð fyrir konur, og berst ótrauð fyrir málstað sínum ennþá, hvort sem það er með bréfaskriftum til yfirvaldsins í Frakklandi eða rifrildum við prestinn á staðnum um greftranir og tilvist guðs. Hún kynnist háttum og menningu kanaka, frumbyggja eyjarinnar smátt og smátt, og verður vitni af og styður heilshugar blóði drifna baráttu þeirra fyrir aukinni sjálfsstjórn.Mér þótti myndin virkilega flott, útilitið trúverðugt og leikframmistöður góðar. Þá passaði myndin sig að víkja sem minnst frá sannleikanum og hélt sig frá "Braveheart leiðinni" sem hefði verið auðvelt að fara með efnið, en er trúverðugari fyrir vikið.

Amadeus
Þessi sker sig nokkuð úr hinum myndunum sem ég sá á hátíðinni, gömul og klassísk en ekki ný og óreynd, Hollywood framleiðsla en ekki sjálfstæð eða frá sjaldséðari löndum. Ég var samt að sjá hana í fyrsta skipti og sé ekki eftir að hafa gert það á hvíta tjaldinu. Myndin er náttúrulega meistaraverk. Fylgir hún síðustu árum Mozarts frá sjónarhorni biturs keppinautar hans, Antonio Salieri. Fléttan er epísk, leiktjöldin gullfalleg og frammistöðurnar eftirminnilegar. En til þess að njóta hennar fyllilega er mikilvægt er að taka myndinni sem það sem hún er; skáldskap. Eftir sýninguna mætti Milos Forman sjálfur upp á svið í stutta stund, og var gaman að heyra í karlinum, enda merkilegur maður. Þó er mér ljóst eftir að hafa heyrt þetta, mætt á "masterklassann" hans, og lesið nokkur viðtöl að hann er alvanur því að fá sömu spurningarnar aftur og aftur og gefur svör í samræmi við það.

Lourdes
Fjallar um konu sem er lömuð neðanfrá öxlum og fer í hópferð til Lourdes, þar sem er rekinn einskonar Kaþólskur kraftaverka-ferðamannaiðnaður. Hún bíður í röðum til að fara í bað úr kraftaverkavatni, fylgist með hjúkrunarkonunum gera sér dælt við sjálfboðaliðana á staðnum, og fær sjálf augastað á einum þeirra. Það þarf ekki að segja frekar frá því að eina nóttina stendur hún upp úr rúminu sínu og fer að greiða sér. Eftirköstunum af því er áhugavert að fylgjast með. Allir virðast hafa mestar áhyggjur af því hvort að kraftaverkið verði tekið gilt, hvort um varanlegan bata sé að ræða, eða hvort lömun hennar hafi verið af þeim toga að þetta teljist ekki sem raunverulegt kraftaverk. Sjálf er hún spurð hvað hún hafi gert, hvað hún hafi fundið þegar það gerðist o.s.frv. En það er ekki víst hvort hún bjóði upp á nein patentsvör.  Myndin var virkilega áhugaverð, vakti upp spurningar um trú og þessi kraftaverk yfirleitt. Mér fannst líka gaman að sjá Sylvie Testud í annari myndinni á tveim dögum, hún lék líka titilhlutverkið í Louise Michel. Góð frammistaða í báðum hlutverkum.

sjá part 2 hér
og part 3 hér


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Þorsteinn Valdimarsson
Þorsteinn Valdimarsson
Hafnfirðingur, heimspekinemi, breytönd, kvikmyndanörd og nörd svona almennt séð
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

221 dagur til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband