Leita í fréttum mbl.is

Bíósumarið 2009

Eins og alþjóð veit er aðalvertíð kvikmyndaveranna sumarmánuðirnir, þar sem stærstu og dýrustu verksmiðjumyndunum er dælt út með fárra daga millibili. Mig langaði að renna yfir hvernig bíósumarið hefur verið þetta árið, hvernig myndum hefur verið tekið og hvað mér fannst um þær, án þess að spilla þeim fyrir þeim sem sáu þær ekki. Auðvitað fer ég ekki yfir allar myndir sem komu út á tímabilinu, heldur nefni helstu stórmyndirnar, góðar og slæmar,  óvæntustu smellina og óvæntustu floppin. Allt frá mínum bæjardyrum séð að sjálfsögðu.

Stórmyndasumrin geta verið mjög misjöfn að gæðum. Til dæmis fannst mér 2008 í stórum dráttum mjög gott sumar, þar við sáum vel heppnaðar og skemmtilegar poppkornsmyndir eins og The Dark Knight og Iron Man slá í gegn (ásamt reyndar Mamma Mia og Sex and the City sem ég á báðar eftir að sjá). 2007 fannst mér aftur á móti lélegt bíósumar, tölvubrellumyndirnar Spiderman 3, Pirates of the Caribbean 3 og Transformers áttu sumarið þó þau væru hundleiðinleg og illa skrifuð. En það sem mig langar að finna út er hvar árið 2009 passar í þessu dæmi.

Wolverine
Segja má að sumarið hafi byrjað í lok Apríl þegar sjálfur Jarfi eða Wolverine kom í bíó í sinni fyrstu sólómynd, sem gerist á undan X-men myndunum víðfrægu. Sagt er frá hvernig hetjan varð til og fékk einkennisbúnað sinn, stálklærnar ógurlegu. Þessi mynd er gott dæmi um það sem hrjáði margar af stærstu myndunum í sumar, nefnilega handritshöfundaverkfallið vestra 2007-08. Handritið hékk illa saman, og auk þess var greinilegt að henni var flýtt í framleiðslu til að ná að koma henni í bíó í tæka tíð. Leikarar stóðu sig ágætlega og pössuðu vel við persónurnar úr myndasögunum, en þeim var bara ekki gefinn nógur efniviður að moða úr í sundurhangandi handriti. Hasaratriðin voru flott en innantóm þar sem þau þjónuðu litlum tilgangi í heildarsögunni.

Gagnrýnendur tóku myndinni kuldalega en það sama er ekki hægt að segja um áhorfendur, sem flykktust í bíó. Vert er að athuga að þó að myndin hafi lekið á netið í fullum gæðum rúmum mánuði fyrir frumsýningu, virtist það ekki skaða aðsóknartölur á nokkurn hátt. Þannig er tryggt að fleiri myndir um kappann eru skammt undan, og sagt er að hann sé á leið til Japans. Vonum bara að þær verði vandaðri stykki.

Star Trek
Næstu helgi, 8. maí, þaut Star Trek upp á bíótjöldin eftir langa bið, en henni var frestað frá jólum 2008 eingöngu vegna þess að Paramount vantaði stórmynd fyrir sumarið. Þetta er endurhugsun á klassísku Trek þáttunum með Kirk og Spock í aðalhlutverki, framkvæmd af J.J. Abrams, gulldreng Hollywood um þessar mundir. Segir myndin frá því hvernig áhöfnin kom saman fyrst á stjörnuskipinu Enterprise NCC-1701 en við nokkuð breyttar aðstæður, tilkomnar vegna tímaflakks eins áhafnarmeðlimsins.

Myndin var að mínu mati fyrirtaks dæmi um akkúrat hvernig sumarmyndir eiga að vera. Persónurnar eru skemmtilegar og vel uppbyggðar, hvort sem þú hefur séð gömlu þættina eða ekki, húmorinn í myndinni er mikill og hasaratriðin vel heppnuð. Útlitsvinnan er gríðarlega flott sem og tónlist og tæknibrellur myndarinnar. Allt þetta gerir það auðveldara að kyngja veikari punktum myndarinnar eins og ekkert alltof sterkri sögu.

Gagnrýnendur og áhorfendur voru á einu máli um þessa mynd, stórskemmtileg var hún, og fékk því fína dóma og græddi fullt af pening. Reyndar er vert að athuga að hún var mikið vinsælli í kvikmyndahúsum innan Bandaríkjanna en utan þeirra. Við megum eiga von á framhaldi von bráðar.

Angels & Demons
Angels & Demons var stærsta myndin í kvikmyndahúsum helgina eftir það. Myndin er einskonar framhald af The Da Vinci Code og fjallar um þegar "táknfræðingurinn" og háskólaprófessorinn Robert Langdon er kallaður til Vatíkansins, vegna dularfullra hvarfa fjögurra kardínála. Fléttast innbrot til CERN, fremstu vísindastofnunnar Evrópu fljótlega inn í myndina og úr verður hörkuspennandi eltingarleikur í kapphlaupi við tímann. Eða var það allavega í bókinni. Kannski að ég sé ekki fullkomlega hlutlaus þar sem ég hef lesið bókina, en myndin var bara engan vegin sá spennutryllir sem hún átti að vera. Angels & Demons

Gagnrýnendur voru nokkuð sammála um að hér væri á ferðinni flott gerð og vel leikin, en bragðdauf útgáfa af sæmilegri spennusögu. Myndinni gekk sæmilega í bíó en var þó langt frá því að ná tekjum í líkingu við The DaVinci Code. Um 2/3 af tekjum myndarinnar komu úr kvikmyndahúsum utan Bandaríkjanna, sem telst frekar mikið. Framhald er í vinnslu, en það verður byggt á næstu bók Dan Brown, The Lost Symbol sem gerast á í Washington og snúast um Frímúrara. Ég bíð spenntari eftir bókinni en myndinni.

Terminator SalvationTerminator Salvation
Fjórða Terminator myndin kom í bíó í lok maí í Bandaríkjunum, í byrjun Júní hér á klakanum. Myndin gerist árið 2018 þegar vélarnar hafa tekið yfir heiminn eftir kjarnorkuárás. John Connor leiðir andspyrnuhóp gegn vélunum og telur sig hafa fundið leið til að klekkja á kerfi þeirra. Á sama tíma vaknar
fanginn Marcus Wright upp, en hann man síðast eftir sér við sína eigin aftöku árið 2003. Væntingar manna höfðu verið misjafnar. Fjarvera Schwartzeneggers og McG, leikstjóri Charlies Angels myndanna, fór í suma en sjálfur var ég bjartsýnn um góða hasarmynd, og finnst að myndin hafi að mörgu leyti uppfyllt þær væntingar mínar.  En þó að hasarinn, útlit myndarinnar, og frammistöður flestra leikaranna hafi verið mjög flottar, skinu vankantar handritsins alltaf í gegn, sérstaklega þegar leið á lok myndarinnar þar sem það virkaði nánast óklárað. Enn eitt fórnarlamb verkfallsins.

Segja má að viðtökur við myndinni hafi verið jafn misjafnar og væntingarnar. Flestir gagnrýnendur sögðu myndina illa skrifuð vonbrigði, en sumir slökuðu á kröfunum, slepptu því að bera myndina saman við forvera sína  og sögðu að hér væri ágætis hasarmynd á ferð. Myndin er dýrasta "sjálfstæða" mynd sem framleidd hefur verið, þ.e. mynd sem stóru stúdíóin framleiddu ekki sjálf heldur keyptu dreifingarréttin að. WB dreifðu myndinni í Bandaríkjunum, en Sony allstaðar annarsstaðar. Segja má að Sony hafi nælt sér í mun feitari bita þar.  Í Bandaríkunum var aðsókn langt undir væntingum en myndin gekk mun betur annarstaðar á hnettinum, jafnvel betur en stórsmellinum Star Trek.  Á prjónunum voru plön um framhald sem gerast átti í London samtímans, en óvíst er hvað úr verður vegna dræmrar aðsóknar í Ameríkunni.

The Hangover
En sumarið var engan vegin einokað af stórum hasarmyndum með vísindaskáldsöguívafi eins og þessi pistill minn gæti bent til. Gamanmyndirnar komu sterkt inn á milli, myndir eins og Night at the Museum 2,  Adventurland og Year One komu og fóru og gekk bara fínt.Hangover

En The Hangover er sennilega óvæntasti smellur sumarsins. Myndin fjallar um 4 vini sem halda til Vegas að steggja einn þeirra almennilega og fylgir svo kostulegum deginum eftir partíið þar sem þeir muna og skilja ekki neitt hvað gerðist kvöldið áður. Hvaðan löggubíllinn, ungabarnið og tígrisdýrið komu eiginlega og hvað varð af brúðgumanum sem á að fara að gifta sig daginn eftir. Mér og öllum öðrum fannst myndin alveg kostuleg, ferskur blær inn í gamanmyndasenuna og virkilega vel samsett mynd.

Þessi einfalda gamanmynd kom öllum gjörsamlega á óvart í sumar, fékk frábæra dóma (miðað við efniviðinn) og betri aðsókn en margar "Blockbuster" framleiðslur, situr í 5. sæti yfir mest sóttu myndir ársins ( þegar þetta er skrifað). Ótrúlega góður orðrómur frá þeim sem sáu myndina gaf henni lengri líftíma og því spilaðist hún mikið lengur í sumar en fjaraði ekki út strax eftir opnunarhelgina. Hinir áður frekar óþekktu aðalleikarar eru strax orðnir stórstjörnur með fullt af væntanlegum myndum á leiðinni, þó ekki svo uppteknir að þeir hafi ekki tíma fyrir Hangover 2, sem undirbúningur er hafinn á.

BrunoBrüno
Önnur helsta gamanmyndin í sumar var óbeina framhaldið af Borat, Bruno. Fjallar hann um tilraunir austuríska þáttastjórnandans Brüno til að verða frægur í Bandaríkjunum, og lærdóm hans á leiðinni um hvað til þarf til þess. Líkt og forveri sinn hneykslar myndin áhorfendur allasvakalega og er sprenghlægileg. Þó tókst henni ekki að vera jafn einlægt fyndin, né jafn skörp ádeila á hið vestræna samfélag og Borat þó vissulega séu þessir punktar til staðar í myndinni. Myndin fékk góða dóma, og ágætis aðsókn miðað við gamanmynd, en náði þó ekki að slá í gegn líkt og Universal hafði vonað, og var mun tekjulægri en stórsmellurinn Borat.

Transformers: Revenge of the FallenTransformers 2
Þá er upptalningin komin að best heppnuðustu mynd sumarsins, eða þeirri verst heppnuðustu, eftir hvernig er litið á það. Fjallar myndin um bresti í sambandi Sam og Mikaelu er Sam þarf að flytja að heiman til að fara í skóla. Í sömu andrá ber vond risavélmenni frá geimnum að og vilja þau endilega ráðast á jörðina. Þá er nú eins gott að hafa góð risageimvélmenni til að slást við þau. Transformers 2 ber þann vafasama heiður að hafa fengið verstu dóma allra tíma í hlutfalli við mestu aðsókn (skv. óformlegri könnun ). Myndin er krystaltært dæmi um þá gjá sem virðist vera á milli gagnrýnenda og áhorfenda.

Ég er sammála þeim fjölmörgu gagnrýnendum sem fannst myndin vera alltof löng sundurlaus runa af tölvugerðum vélmennaslagsmálum, með fáránlega ofleiknum og illa skrifuðum persónum og handriti sem greinilega var hent saman í eftirvinnslu myndarinnar til að kítta á milli hasaratriða (verkfallið aftur). Hér vil ég koma því að að ég er poppkornsmyndamaður, ég hef gaman að kjánalegum hasarmyndum sem taka sig mátulega alvarlega. Ég er ekki að reyna að hljóma eitthvað vitrænni en aðrir bíógestir en í fullri hreinskilni fannst mér myndin alveg hræðileg bíóupplifun. Hún stendur fyrir allt það sem er að í kvikmyndabransanum í dag. Hrein móðgun við mig sem áhorfanda.

En staðreyndin er sú að ég virðist vera í minnihluta þeirra sem borguðu sig inn á myndina. Margir vinir mínir virtust hæstánægðir með stykkið, og það talar sínu máli að hún er aðsóknarmesta mynd af því sem af er þessa árs. Það eina sem Hollywood hlustar eftir eru peningar, þannig að við megum búast við hrinu af svipuðum myndum á markaðinn á næstu misserum, auk T3 eftir svona 2-3 ár.

Harry Potter 6Harry Potter & The Half Blood Prince
Jafnvel galdrastrákurinn sjálfur gat ekki forðast áhrif handritshöfundaverkfallsins. Warner Brothers ákváðu að fresta myndinni um heila 8. mánuði, frá nóvember til júlí, og sagt var að það væri til að jafna bókhaldið milli ára. Batman græddi svo mikið 2008 að það hefði litið illa út fyrir 2009 hefðu þeir ekki haft álíka stórsmell í Júlí 2009.

Myndin fylgir 6. ári Harrys í Hogwartskóla. Harry og Dumbledore grafast fyrir um fortíð Voldemorts til að reyna að klekkja á honum, og unglingsástin tekur öll völd hjá krökkunum, með misskemmtilegum afleiðingum. Mikil fagmennska hefur fylgt seríunni í gegnum árin og er þessi mynd engin undantekning. Þó hugsar maður alltaf sem lesandi bókanna hvað betur hefði mátt fara, hverju var sleppt og hvað hefði mátt vera öðruvísi. Helst er það endir myndarinnar sem manni fannst hálf endaslepptur miðað við bókina. Eitt sem ég hef tekið eftir að ákveðið andrúmsloft sem var til staðar í fyrstu myndunum virðist hafa vikið. Hvergi sá maður drauga fara eftir göngum skólans, stigana sem breytast án fyrirvara eða öll málverkin pískra saman um það sem þau sáu. Nú litu gangarnir meira út eins og... gangar.

Annars þótti mér sem öðrum myndin mjög vel heppnuð. Hún fékk hörkugóða dóma og met aðsókn að vanda. Þannig að WB heppnaðist ætlunarverk sitt með að flytja myndina fram á sumar. Ein bók er eftir ókvikmynduð, en henni verður skipt í tvær myndi, sem koma eiga út í Nóvember 2010 og Júlí 2011.

Karlar sem hata konur.Karlar sem hata konur
Verandi kvikmyndanörd, hef ég yfirleitt lesið einhverja pistla og séð brot úr myndum löngu áður en ég sé þær, hef kynnt mér umfjöllunarefni þeirra og hvernig þeim hefur verið tekið.  Þegar ég fór á Karlar sem hata konur vissi ég nánast ekki neitt. Vissi að aðalleikkonan talaði íslensku, að bækurnar hefðu slegið í gegn eftir að höfundurinn dó og myndin ætti víst ekkert að gefa þeim eftir.

Það er svo góð tilfinning að láta koma sér á óvart. Ég bjóst helst við einhverju í ætt við Wallander þættina, en þetta var sko engin venjuleg sunnudagsglæpamynd.  Myndin fjallar um rannsóknarblaðamanninn Mikael Blomkvist sem  tekur að sér að rannsaka hvarf stúlku á sjöunda áratugnum sem aldrei var upplýst í Norður Svíþjóð. Á sama tíma kynnumst við Lisbeth Salander, ungum tölvusnillingi með vafasama fortíð, sem hefur verið ráðin til að fylgjast með Blomkvist. Fljótlega liggja leiðir þeirra saman er þau komast á sporið á drungalegri hlutum en þau óraði fyrir.

Myndin var gríðarlega vel heppnuð, allavega frá sjónarhorni þess sem ekki hefur lesið bókina. Spennandi, flott gerð, gott plott og gríðarlega sterkar leikframmistöður, sérstaklega frá Noomi Rapace sem hin dularfulla Lisbet. Þá hef ég sjaldan séð eins áhrifaríka og sláandi lýsingu á kynbundnu ofbeldi í kvikmynd, Silence of the Lambs er nánast barnaleikur miðað við þetta. Aðsóknin hefur ekki látið á sér standa frekar en bókakaupin, og er myndin sú mest sótta á norðurlöndum í ár. Gott dæmi um að myndir sem eru ekki frá Hollywood geta líka orðið vinsælar einstaka sinnum.  Ekki er löng bið eftir framhöldum, önnur myndin er væntanleg í september, og sú þriðja fyrir jól.  Þær voru gerðar allar í einu með því augnamiði að vera sýndar í sjónvarpi, sem betur fer sá einhver meiri möguleika í efninu áður en svo fór.

Public Enemies.Public Enemies
Frá Michael Mann, leikstjóra Heat og Miami Vice kemur enn ein löggu og bófa myndin. Í þetta skiptið gerist hún í kreppunni miklu og fjallar um bankaræningjann John Dillinger og baráttu hans við laganna verði. Myndin er byggð á sannsögulegum atburðum, en fer víst nokkuð frjálslega með atburðarrásina. Það skemmir þó ekkert fyrir skemmtanagildinu. Myndin er hröð og lifandi þó hún sé nokkuð löng, og frammistöður leikaranna eru til fyrirmyndar, með Depp í fararbroddi og hin franska Marion Cotillard stelur öllum senum sem hún er í. Helst hefur Christian Bale úr litlu að moða sem laganna vörður að eltast við Dillinger. Útlitið er hrátt og raunsætt en myndin er tekin með HD videovélum í stað filmu, sem skilar öðruvísi tilfinningu. Margir voru efins um þetta útlit kvikmyndarinnar en ég tel það hafa heppnast mjög vel.

Myndin fékk ágætis aðsókn og blendna dóma, enginn stórsmellur að hvorugu leyti en gekk bara ágætlega.  Það var hressandi að sjá fína sumarmynd til tilbreytingar sem ekki er hluti af einhverskonar seríu, framhald, endurgerð, eða með framhöld væntanleg. Þó megum við auðvitað búast við nýjum verkefnum frá öllu gæðafólkinu sem tóku þátt í að gera þessa mynd.

Drag Me to Hell.Drag me to Hell
Hryllingsmyndir voru ekki stórar í sumar frekar en önnur sumur, endurgerðin af The Last House on the Left kom í maí, og sennilega einhverjar fleiri sem ég man ekki eftir. Ég hef ekki haft mikinn áhuga á þessari gerð af myndum en sú sem stendur algjörlega uppúr eftir sumarið er Drag Me to Hell. Myndin er endurkoma Sam Raimi í hryllingsgeirann eftir langa fjarveru, og fjallar um Christine Brown, unga stúlku er vinnur sem lánafulltrúi í banka. Hún er að vonast eftir stöðuhækkun, og neitar gamalli sígaunakonu um endurfjármögnun á húsnæðisláni sínu. Það hefði hún ekki átt að gera.

Á mig virkaði þessi mynd algjörlega. Þó hún sé nú ekki uppfull af frumleika þá nýtir hún klisjur hryllingsmyndageirans til hins ýtrasta og er einfaldlega stórskemmtileg. Maður hoppaði um í sætinu við bregðuatriðin hefðbundnu en á sama tíma var maður oft skellihlæjandi yfir aðstæðunum sem aumingja stelpan lendir í. Myndin fékk mjög góða dóma og var hyllt sem skemmtilegasta hryllingsmyndin í lengri tíma. Því miður fékk myndin heldur dræma aðsókn, fólk virtist ekki hlusta á ráðleggingar gagnrýnenda frekar en fyrri daginn. Í þessu tilviki fannst mér það synd.

BasterdsInglourious Basterds
Þá er komið að síðustu myndinni á þessum grófa lista. Inglourious Basterds gerist í seinni heimstyrjöldinni eins og Quentin Tarantino sér hana fyrir sér. Þar segir annarsvegar frá liði bandarískra hermanna af gyðingaættum sem sendir eru inn í Frakkland til að valda vandræðum og einfaldlega drepa eins marga nasista og þeir geta. Hinsvegar fylgjumst við með Shosönnu, ungri stúlku af gyðingaættum sem býr í París undir fölsku flaggi eftir að fjölskylda hennar var myrt af nasistum 3 árum áður. Þessar fléttur og reyndar fleiri mynda svo eina epíska heild sem slær áhorfendur út af laginu eins og Tarantino einum er lagið.

Að horfa á Tarantino mynd í fyrsta skipti er alltaf ákveðin upplifun og þessi var engin undantekning. Sama hvaða væntingar maður hafði, þá kemur myndin manni á óvart. Ég er einn af þeim sem er hrifinn af nánast hverju sem hann tekur sér fyrir hendur og kolféll að vanda fyrir þessari mynd. Gagnrýnendur tóku myndinni feikivel, og áhorfendur virðast ætla að flykkjast á hana líka. Sem er eins gott fyrir framleiðendurna Weinstein bræður, myndin mun sennilega bjarga fyrirtæki þeirra, The Weinstein Company, frá gjaldþroti.

Aðrar myndir
Eins og ég segi er ég alls ekki að fara yfir allar myndi sumarsins, bara myndirnar sem ég sá og mér fannst vera merkilegastar. Myndir sem ég sá ekki voru t.d. barnamyndirnar, Ice Age 3 og G-force sem báðar voru í þrívídd. Allar rómantísku gamanmyndirnar sem eru oftar en ekki í öðru sæti aðsóknarlistans á eftir stóru hasarmynd vikunnar, The Proposal, Ghosts of Girlfriends Past osfrv. Örugglega ágætis myndir allt saman, en ég bara passa ekki inn í markhópinn. Það komu einstaka myndir sem ég hefði viljað sjá, t.d.The Hurt Locker, sem fékk fína dóma en fór framhjá áhorfendum (þar á meðal mér), en flestum myndum sem ég nefni ekki hér sleppti ég vegna þess að ég nennti ekki að sjá þær. G.I. Joe er ein þeirra, eftir Transformers 2 ákvað ég að mig bara langaði ekki að sjá fleiri svona myndir. Þó hafa margir sagt að Joe sé skárri en sú steypa, ég bara þori ekki að taka mark á þeim.

En hvernig var þá sumarið samanborið við önnur? Vissulega sáum við áhrif handritshöfundaverkfallsins í mörgum stórmyndunum, en í heildina litið kom þetta ágætlega út, bara hefðbundin blanda af skemmtilegum og vel skrifuðum myndum og svo þessum ekki eins vel skrifuðu en tæknibrellumiklu. Þó að vissulega standi myndir eins og Star trek, Hangover og Basterds uppúr sáum við engann smell á borð við The Dark Knight síðasta sumar, sem bæði áhorfendur og gagnrýnendur kolféllu fyrir. Ég myndi segja að þetta sumar falli mitt á milli 2007 og 2008, bara svona meðalgott. Annars er nú sennilega frekar þýðingarlítið að velta hlutunum svona fyrir sér, frekar bara mæta í bíó og reyna að skemmta sér. Ef einhver nennti að lesa alla leið hingað niður, hvering fannst ykkur sumarið, eruð þið sammála mínu áliti á myndunum?

 

Framhaldið
Í haust megum við svo eiga von á nokkrum "sumarmyndum" sem var frestað hér á Íslandi og ég ætla allavega að sjá myndir eins og Up, District 9 og Funny People þegar þær loksins koma. Svo eru kvikmyndahátíðir á næstu grösum, og svo jólavertíðin með sínum stórmyndum! Sjáum til hvort ég mun nenna að skrifa um það, ætli ég verði ekki byrjaður í skólanum og hafi annað að gera...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Þorsteinn Valdimarsson
Þorsteinn Valdimarsson
Hafnfirðingur, heimspekinemi, breytönd, kvikmyndanörd og nörd svona almennt séð
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

219 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband