Leita í fréttum mbl.is

Mín RIFF - partur 3

Ef einhvern myndi langa til þess, þá má:
sjá part 1 hér
og part 2 hér

Unmade beds
Fjallar um hústökufólk í London, stúlku frá París og strák frá Spáni. Stelpan lendir í ástarsambandi við strák sem hún veit ekki einu sinni hvað heitir og ákveður að halda því þannig, spánverjinn hefur upp á breskum föður sínum sem hefur aldrei haft neitt með hann að gera. Ástarsambandið hjá stelpunni þróast skemmtilega, en samband feðganna misvel. Pabbinn er fasteignasali og strákurinn þykist vera að leita sér að íbúð. Myndin var skemmtileg að sumu leiti, en skyldi frekar lítið eftir hjá mér.

Antoine
Antoine er 5 ára blindur strákur af víetnömskum uppruna sem býr í Montreal. Hann gengur í venjulegan skóla í skólakerfinu þar og fékk að hjálpa einum kennaranum sínum að búa til bíómynd. Í myndinni er hann einkaspæjari, sem keyrir bíl, talar í farsímann sinn og notar míkrófón til þess að uppgötva heiminn í kring um sig og hjálpaði þannig að taka upp hljóðið fyrir myndina. Myndin var einlæg og persónuleg, þó maður vissi aldrei alveg hvað væri planað, og hvað ekki, hversu mikið var leikið og hversu mikið ekki. En best er að líta á myndina sem einhverskonar heimildamynd um ævintýri barnaleiksins.

Victims of Our Riches
Fjallar í stórum dráttum á muninn á Afríku og Evrópu, ríkidæmið og fátæktina. Tekin eru viðtöl við fólk sem reynt hafa að smygla sér til Evrópu og mistekist, en einnig við aðstandendur þeirra sem tókst ætlunarverkið. Reynslusögurnar sem sagt er frá eru sterkar og um leið er sterk ádeila á stöðu heimsins í dag. Fín heimildamynd sem vill vera beitt en hefur kannski ekki alveg nógu margar tennur, þar sem lítið annað er sýnt en viðtöl.

Daytime Drinking
Gamanmynd frá Suður-Kóreu um mann sem er í ástarsorg eftir að kærastan hans hættir með honum. Félagarnir ákveð eitt kvöldið yfir öli að fara í smá ferð með hann daginn eftir, en þegar komið er á hólminn er hann sá eini sem mætir. Eftir fylgja sko ýmisleg ævintýri, flest stórskemmtileg fyrir áhorfendurnar. Sennilega fyndnasta myndin sem ég sá á hátíðinni, mæli með henni.

Grace
Var önnur miðnæturmynd hátíðarinnar, sýnd var á undan stuttmynd sem ég missti af. En Grace fjallar um ólétta konu sem missir manninn sinn og fóstrið í bílslysi. Hún ákveður þó að eiga náttúrulega fæðingu, og fyrir eitthvað kraftaverk fæðir hún lifandi barn. Smám saman kemst hún þó að því að þetta er ekki venjulegt barn sem hún eignaðist, sýgur eitthvað annað úr brjóstunum en móðurmjólkina. Myndin var þung og hæg, og ég var of þreyttur eftir fimm mynda törn um daginn til að finnast hún hræðileg. Ekki vel valin miðnæturmynd að mínu mati þrátt fyrir ógeðslega hugmynd, hefði verið betra að hafa eitthvað aðeins fjörugra.

Flickan
Sænsk mynd sem fjallar um stelpu sem er skilin eftir ein heima í húsi upp í sveit yfir sumar þegar foreldrar hennar og bróðir flytja til Afríku. Föðursystir hennar á að vera að passa hana, en stingur fljótlega af með einhverjum manni svo að stúlkan er alveg ein eftir. Hún leikur stundum við eldri stelpur úr nágrenninu og stundum við strák af næsta bæ sem er á hennar aldri. Svo fylgjumst við með hvernig 10 ára stelpu gengur að sjá um sig sjálfa í heilt sumar. Myndin gerist hægt en var samt áhugaverð og skemmtileg að mörgu leyti, og má hrósa krökkunum í aðalhlutverkunum fyrir náttúrulegar og eðlilegar frammistöður.

Stingray Sam
Furðulega skemmtilegur söngva-geim-vestri sem er settur saman úr sex 10. mínútna löngum myndböndum sem gætu allt eins verið gerð fyrir youtube. Cory McCabee, leikstjóri myndarinnar, hefur einmitt sagt að hún sé gerð fyrir skjái af öllum stærðum og gerðum. Þess vegna fannst manni hálfgalið að fara á hana í bíó. En ég meina, ég borgaði bara fyrir passann þannig að ég tapa engu á því. Og eftirá sé ég ekkert eftir að hafa séð hana. Stingray Sam er fyrrverandi fangi, núverandi barsöngvari frá plánetunni Durango. Fyrrverandi félagi hans, Quasar Kid, finnur hann og dregur hann með sér í ævintýri að leita að lítilli stelpu sem var rænt. Myndin er stórskemmtileg með litríkum persónum þó leiknu atriðin séu svarthvít. Inn á milli eru svo "tæknibrelluatriði" sem minna á teiknistílinn hjá Monthy Python. Best af öllu eru þó söngvaatriðin, sérstaklega lagið Fredward. Mæli með að fólk kíki á þetta, allavega fyrsta þáttinn má finna hér: http://www.stingraysam.com/

Dogtooth
Fjallar um grísk hjón sem alið hafa upp börnin sín þrjú í algerri einangrun frá umheiminum. Börnin, strákur og tvær stelpur, eru nú komin yfir tvítugt en hafa aldrei komið út fyrir háu girðinguna sem umkringir húsið þeirra og bakgarðinn. Tilveru þeirra er frá A til Ö stjórnað af foreldrum þeirra og þau vita ekkert um hinn ytri heim. Þegar köttur smyglar sér inn í garðinn er hann umsvifalaust drepinn, og þeim sagt að kettir séu stórhættulegir. Þegar hlustað er á Frank Sinatra syngja Fly me to the Moon á kvöldin er þeim sagt að það sé afi.

Pabbi þeirra er sá eini sem yfirgefur heimilið og fer hann til vinnu alla virka daga. Krökkunum er sagt að maður sé ekki tilbúinn til að yfirgefa heimilið fyrr en önnur augntönnin er dottin úr, og ekki tilbúin til að keyra bíl fyrr en hún vex aftur. Þeim er sögð sagan af eldri bróður þeirra, sem fór út áður en hann var tilbúinn, og getur aldrei komið aftur. Þegar þau halda að enginn sjái til kasta þau mat yfir girðinguna til hans. Planið fer fyrst að fara úrskeiðis þegar pabbinn hefur að taka heim með sér stúlku úr vinnunni til að svala kynferðislegum hvötum drengsins. Þó að myndin sé mjög róleg í framvindu sinni er hún alltaf óþægileg og jaðrar við að vera ógeðsleg. En vissulega áhugaverð, í ljósi þess að við  búum í tilveru þar sem sífellt eru að uppgötvast ný tilfelli á borð við Josef Fritzl eða Natascha Kampusch.

Úff.
Þarna var hátíðinni lokið og ég hafði blendnar tilfinningar. Þetta er í fyrsta skipti sem ég kaupi passa á hátíðina þó áður hafi ég reynt að fara nokkrum sinnum. Eftir þetta törn, 24 myndir á 10 dögum var ég alveg dauðuppgefinn og feginn að vera búinn, geta farið heim til mín. Sofið í rúminu mínu og hangið í tölvunni minni. Samt var ég alltaf að rekast á myndir og atburði sem ég hefði viljað sjá en missti af. Búninga-sýning í sal 1 á Rocky Horror! Sýning á One Flew Over the Cuckoo's Nest í hátíðarsalnum með Milos Forman viðstaddan! Bíó í sundi! Og fullt af myndum sem ég hefði viljað sjá en einfaldlega komst ekki yfir. En allt í allt var hátíðin hin besta upplifun.


Mín RIFF - partur 2

Með allt á hreinu
Önnur klassík, samt af öðrum toga en Mozart. Fór nú aðallega á þessa af því það er stuð að fara í bílabíó. Það var langt síðan ég hafði séð myndina og var gaman að rifja hana upp. Þó að ég kæmist að því að myndin er nú frekar innihaldslítil hvað varðar söguþráð bæta skemmtileg persónusköpun og svo öll þessi stuðmannalög upp fyrir það. Alltaf gaman að rifja upp klassíkina.
 
Zombie Girl                
Sennilega besta "gerð myndarinnar" mynd sem ég hef séð. Fjallar um  Emily, 12 ára stelpu í Austin Texas sem er óttalegur bíómyndaáhugamaður, sækir iðulega nördasýningar í hinu rómaða Alamo Drafthouse og er staðráðin að verða kvikmyndagerðarkona. Og hún er ekkert að tvínóna við hlutina, eftir að hafa gert nokkrar stuttmyndir ríður hún á vaðið með dyggri aðstoð móður sinnar og gerir myndina Pathogen, sem fjallar um vírusfarald sem breytir fólki í lifandi dauða.

En hún kemst fljótt að því að það er ekkert grín að gera kvikmynd. Framleiðslan tekur langan tíma, og tekur sinn toll á aðalleikarana, aðstandendur Emily og aðallega hana sjálfa og mömmu hennar. Hún lendir í ýmsum erfiðleikum, enda er erfitt að skipuleggja dagskrá fyrir heila kvikmynd þegar maður er tólf ára. Og auðvitað þarf hún að vinna heimavinnuna sýna eins og aðrir krakkar líka. En eftir meira en ársframleiðslu tekst henni að ljúka myndinni. Eftir að hafa séð þessa mynd, langar mann ekkert frekar en að geta horft á Pathogen.

Kelin
Er mynd frá Kazakhstan sem gerist í einhverskonar forsögulegum heimi, þar sem menn voru enn í meiri tengslum við náttúruna. Karlar eru sterkir veiðimenn, en konur eru göldróttar, enda búa þær yfir lífskraftinum. Fylgir aðallega sögu tveggja kvenna, ungri konu sem á að fara að gifta og menn keppast um, og eldri konu sem er mamma mannsins sem nær í kvenkostinn. Hún getur talað við úlfa og er voða göldrótt. Svo vindur sagan að sjálfsögðu upp á sig, en án orða, því í myndinni er ekkert talað. Því mun meira er af stunum, gráti hlátri, öskrum, og ýlfrum. Flott gerð mynd með ýmislegt að segja, en pínulítið kjánaleg á köflum, þegar öll samskipti fara fram með stunum.

Burma VJ
Fyrir tveimur árum lokuðu stjórnvöld í Búrma landinu. Þeir ráku alla fjölmiðla úr landi, klipptu á Internetið. Ástæðan voru mestu mótmæli sem herstjórnin þarna hafði upplifað í að minnsta kosti 20 ár. Burma VJ segir söguna af blaðamönnunum sem laumuðust með myndavélar á atburðina og smygluðu upptökunum úr landi. Myndin þótti mér mjög áhrifarík, segir persónulega sögu blaðamannanna og einnig sögu heillar þjóðar.  Það er stór munur á að sjá ofbeldi í leiknum myndum og alvöru ofbeldi, og því er hún ekki fyrir viðkvæma.  Myndin vakti upp spurningar, hvernig geta hermenn fengið sig til að skjóta á sína eigin þjóð, hvers vegna eru stjórnvöld svona grimm, og hvers vegna skilaði þetta ekki neinu. Því tveimur árum seinna situr sama herstjórnin við völd, byltingin var kæfð niður í fæðingu. Sá myndina tvisvar, einu sinni í norræna húsinu og nokkrum dögum seinna í sjónvarpinu á SVT. RÚV mætti alveg fylgja í fótspor þeirra.

Terra Madre
Ein af fáum myndum hátíðarinnar sem voru bara alls ekki fyrir mig. Ég styð boðskap myndarinnar heilshugar. Hún fjallar um matvælaframleiðendur sem skuldbinda sig til að vinna matvæli á sjálfbæran og ábyrgan hátt, í stað þeirra hátta sem við á vesturlöndum höfum tekið upp síðustu hálfa öldina eða svo. En því miður var myndin bara ruglingslega uppbyggð, var ekki mjög upplýsandi og endaði sem náttúrulífsmynd í garði eins garðyrkjumannsins í svona hálftíma. Kannski var ég eitthvað illa upplagður en mér fannst hún bara leiðinleg.

The Happiest Girl in the World
Rúmensk mynd sem fylgir 16 ára stúlku sem hefur unnið bíl í samkeppni appelsínsframleiðanda. Hún þarf að keyra úr sveitaþorpinu sínu með foreldrum sínum inn til borgarinnar að ná í bílinn, og leika í auglýsingu fyrir appelsínið. Ekki mikið meira gerist í þessari mynd. Framleiðendur auglýsingarinnar vita ekki hvað þeir vilja, og eru óánægðir með að stúlkan sem vann er ekki ofurmódel. Foreldrar hennar reyna á milli taka á auglýsingunni að sannfæra stúlkuna um að eiga ekki bílinn heldur selja strax, svo þau geti byggt við gistiheimilið sitt. Mörgum fannst myndin leiðinleg, og víst gerðist hún hægt, en undirliggjandi var einhver húmor sem tryggði að mér leiddist allavega ekki.

Konur á rauðum sokkum / Umoja
Tvær klukkustundarlangar myndir sem fjalla um kvenréttindabaráttu sýndar saman.  Umoja - þorpið þar sem karlar eru bannaðir fjallar um þorp í Kenía þar sem konur sem hlaupist hafa úr skipulögðum hjónaböndum og/eða verið fórnarlömb kynferðisofbeldis flýja til að stofna nýtt líf. Þar reka þær menningarsetur og gengur bara vel án karlanna. Sagt er frá tilurð þorpsins og átökum sem orðið hafa í kring um það, en karlarnir eru margir ekki sáttir með að það gangi svona vel. Konur á rauðum sokkum fjallar um sögu Rauðsokkuhreyfingarinnar rómuðu, og gerir það á skemmtilegan og líflegan hátt, með viðtölum við konur sem komu að hreyfingunni úr ýmsum áttum. Myndin fer vel yfir sögu og sýnir hve mikið samfélagið hefur í rauninni breyst síðan á áttunda áratugnum, en líka að við eigum alltaf að líta gagnrýnum augum á samtímann til að sjá hvort það er ekki eitthvað sem má bæta í samfélaginu, sérstaklega varðandi stöðu kynjanna en líka aðra þætti. Að vera sáttur við allt eins og það er getur verið hættulegt, og hindrar oft framþróun í rétta átt.

Mid August Lunch
Yndisleg lítil ítölsk mynd, um miðaldra mann sem býr einn með aldraðri móður sinni. Hannskuldar leigusalanum sínu margra mánaða leigu, en fær tilboð þess efnis að gæta aldraðar móður hans yfir einhverja ítalska hátíðisdaga og skuldirnar falli niður. Hann fellst á það, en fljótlega biðja fleiri kunningjar hans um sama greiða, og hann endar með fjórar gamlar konur í pössun. Það sem eftir fylgja eru ævintýri í léttum dúr, konunum kemur misvel saman, og hafa hver sína sérþörfina, með mataræði og lyfjagjafir, en einnig bara sjónvarpsáhorf. Myndin var stórskemmtileg, en mér þótti hún þó ekki alveg jafn skemmtileg og sumum í salnum, sem gerðu þetta á ítalskan máta (geri ég ráð fyrir) og höfðu rauðvínsglösin með sér inn.

sjá part 1 hér
og part 3 hér


Mín RIFF - partur 1

Dagana 17. - 27. september tók ég mér frí frá námsbókunum og öllu lífinu í stórum dráttum, til þess að mæta á alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Reykjavík. Ákvað að fara alla leið og kaupa mér passa, sem ég hef aldrei gert áður. En þá ætlaði ég líka að láta...

Smá leiðrétting varðandi sýningu RIFF á Rocky Horror

Í frétt mbl.is stendur að sýningin hafi verið færð í "stóra salinn" sem ég tók strax sem 970 sæta viðhafnarsalinn í Háskólabíó sem í daglegu tali er kallaður stóri salurinn. Ég fór í miðasöluna og spurðist fyrir, og hið rétta er að sýningin var færð í...

Sorglega léleg blaðamennska

Fyndið hvernig íslenskir blaðamenn virðast apa upp tilhæfulausar fréttir úr bresku gulu pressunni og birta án nokkurs fyrirvara um uppruna þeirra. Maður hefur reyndar oftar rekið sig á svona vinnubrögð á visir.is, en þetta virðist vera lenska í...

Bíósumarið 2009

Eins og alþjóð veit er aðalvertíð kvikmyndaveranna sumarmánuðirnir, þar sem stærstu og dýrustu verksmiðjumyndunum er dælt út með fárra daga millibili. Mig langaði að renna yfir hvernig bíósumarið hefur verið þetta árið, hvernig myndum hefur verið tekið...

Röfl við Kaupþing

Meðfylgjandi er bréf sem ég sendi til míns viðskiptabanka, Kaupþings rétt í þessu. í ekkert alltof góðu skapi, og ákvað að tappa af svolitlu sem hefur verið að bögga mig alltof lengi: Ég hef verið með mín viðskipti hjá ykkur í yfir 4 ár, lengst af hef ég...

Nokkrar færslur á ári

Síðast skráði ég mig hér inn í haust, rétt eftir komuna heim frá Indlandi og sagðist ætla að skrifa meira um þá ferð um leið og ég hefði jafnað mig af magapestinni (sem ég fékk eftir að ég kom heim). Síðan hefur liðið dágóður tími og hefur mér tekist að...

Kaldhæðni örlaganna

Á sunnudag snerum við aftur úr okkar mögnuðu Indlandsferð. Ferðin gekk eins og í sögu, ekkert sem ekki mátti klikka fór úrskeiðis. Við fengum passana okkar með áritunum í tæka tíð, misstum ekki af neinum flugum eða lestum, og veiktumst svo til ekki...

10 dagar

Jæja gott fólk nú er farið að styttast í ferðina. Ég held að ekkert okkar sé alveg að átta sig á því hvað 10 dagar eru fljótir að líða. Við erum unnum fyrir ferðinni. Keyptum miða. Fórum í sprautur. Töluðum við fók og kynntum okkur aðstæður. Búin að...

Næsta síða »

Höfundur

Þorsteinn Valdimarsson
Þorsteinn Valdimarsson
Hafnfirðingur, heimspekinemi, breytönd, kvikmyndanörd og nörd svona almennt séð
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

33 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband