Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Moka

Í gær mætti ég í fyrsta skipti í sumarvinnuna mína. Ég verð á Róló í sumar, en þar sem ekki er búið að opna þar, vorum við að moka skólagarða. Allan daginn. Við gerðum ekkert annað en að moka stíga, allan vinnutímann. Þegar við hættum var ég dauðþreyttur. Þá fór ég á Little Caesars og tók kvöldvakt þar. Í morgun héldum við svo áfram að moka. Og aftur kl. 9 í fyrramálið. Ég get samt ekkert kvartað ég vissi alveg að hverju ég gengi þegar ég samþykkti að koma að moka. Þetta eru líka búnir að vera hrikalega arðbærir dagar!

Kynleg kynjaskipting.

Margir benda á að munur flokkana sé ekki svo mikill, og samstarf ætti að vera auðvelt. Það er örugglega alveg rétt, en á móti bendi ég á það að munurinn á öllum hinum flokkunum er heldur ekkert mikill. Hið íslenska pólitíska litróf er ekki það breitt og ég held að allir flokkarnir ættu að geta unnið vel saman. Ég hef talsverðar áhyggjur af stöðu Samfylkingarinnar í þessu nýja hjónabandi. Við sjáum alveg hvað hefur gerst með tvo síðustu samstarfsflokka Sjálfstæðismanna, Alþýðuflokkinn og Framsókn. Þeir gengu fram af sér dauðum í þessu samstarfi. Það er þó vonandi að Samfylkingin fái að koma sýnum málum á framfæri og verði sterk innan ríkisstjórnarinnar. Ég hefði kosið hana í kosningunum síðast hefði ég mátt það, en ég er ekki viss um að ég geri það næst. Sérstaklega ef að það kemur á daginn að flokkurinn sé bara kominn í stað Framsóknar og beygi sig og bukti fyrir íhaldinu. Það sama gildir örugglega um þó nokkra aðra kjósendur hennar.

Í raun sýnir hin nýja Ráðherraskipting flokkana mun flokkana mjög vel. Samfylkingin velur hæft fólk ásamt því að passa upp á kynjaskiptingu, en Sjálfstæðisflokkurinn virðist velja án nokkurs tillits til kyns. Og niðurstaðan er S = 3-3, D = 5-1. Margir halda því fram að kynjakvótar séu ekki góð leið, og með því móti sé hæfu fólki ýtt frá í staðin fyrir aðila af réttu kyni. Vissulega gætu slíkar aðstæður komið upp, en núna er staðan alls ekki slík. Sumir hafa bent á að varaformaður samfylkingarinnar fái ekki ráðherraembætti, en staðreyndin er sú að þær þrjár konur sem gera það eru vel að þeim komnar. Raunar er það óskiljanlegt að ekki séu fleiri konur í ráðherraliði sjálfstæðismanna. Arnbjörg Sveinsdóttir hefur setið 12 ár á þingi fyrir flokkinn og hefði vel komið til greina í ráðherraembætti. Guðlaugur Þór sem verður heilbrigðisráðherra, hefur setið á þingi síðan 2003. Þó að ekkert sé að því að hleypa ungu fólki að, er erfitt að sjá hvað Geir sá í Guðlaugi framyfir Arnbjörgu. En ég viðurkenni það nú að ég er alls enginn sérfræðingur í innanflokksmálum Sjálfstæðisflokksins...
mbl.is Þrjár konur og þrír karlar ráðherrar fyrir Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konur geta ekki bakkað!

Í kvöld fór ég á námskeið fyrir unga ökumenn í Forvarnarhúsinu sem Sjóvá og Umferðarstofa stóðu fyrir. Þar kom margt fræðandi fram, við fengum meðal annars að prófa veltibílinn fræga og upplifa hvernig væri að lenda í árekstri á lítilli ferð. Ég vil þakka þeim Einari og Sigga fyrir góða kvöldstund. Hins vegar var það sem vakti helst athygli mína, og nokkurra annarra á námskeiðinu, hversu mikil áhersla var lögð á að sýna muninn á því hvernig karlar og konur hegðuðu sér í umferðinni. Niðurstaðan var einhverveginn þannig að konur bakka oftar á, en karlar lenda í fleiri óhöppum úti í umferðinni. Þetta eyddum við svo löngum tíma í að tala um, og námskeiðshaldararnir komu með ýmsar skýringar á þessu. Það var t.d.minnst á það að gen karla væru „árásargjarnari“ en kvenna og að munur væri á sjón karla og kvenna. Konur eru með fleiri keilur en karlmenn fleiri stafi. Eða var það öfugt. En þeirra helsta skýring var sú að munur væri á hegðun kynjanna í notkun bílsins. Strákar notuðu bílinn mun meira, og þá sem leiktæki. Þeir væru miklu meira úti að rúnta á kvöldin, og lentu þar af leiðandi í fleiri slysum. Stelpur hinsvegar notuðu bílinn að mestu leyti sem farartæki, til að komast að heiman í skólann, og „úr vinnunni í hárgreiðslu“. (Fyrirlesari sagði þetta reyndar í einhverskonar hálfkæringi). Og það versta var að tölfræðin sem þeir notuðu til að styðja mál sitt virtist vera frekar veik. Þetta voru tölur fyrir árið 2006, og þær sýndu m.a. að nákvæmlega jafnt hlutfall árekstra ungra karla og kvenna það árið voruóhöpp við bakk. („en fyrir nokkrum árum var hlutfall ungra kvenna meira! “ Sagði umsjónarmaðurinn.) Það sama gilti um aftanákeyrslur. Að vísu var hlutfall ungra karla í umferðinni sem lenda í óhöppum enn mikið hærra, en hlutur kvenna virtist vera að aukast þarna.

Ég held að þetta sé vitlaus áhersla hjá þeim félögum, að einbeita sér svona að því að sína mun kynjanna í hinu og þessu, sem virtist vera mjög lítill hvort eð er. Staðreyndin er að svona hlutir eru að mjög miklu leyti einstaklingsbundnir, en ekki kynbundnir. Til að styrkja mál mitt nefni ég afar vandræðalegt atvik úr liðinni viku. Þá álpaðist ég til að skutla litla bróðir mínum um 50 metra niður götuna heima hjá mér, niður að video-leigu sem er alræmd fyrir léleg bílastæði. Ég fór samt þar inn og hugsaði með mér að ég ætti nú auðveldlega að komast út af stæðinu aftur. En þegar við komum út aftur hafði bíll lagt fyrir aftan mig hinum megin á stæðinu, og bakkaðstæður voru orðnar talsvert erfiðari. Ég þóttist þó ætla að fara þarna út en eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir, þar sem ekki mátti miklu muna að ég eyðilegði eitthvað, kom stelpa nokkrum árum eldri en ég, og sagðist ekki geta horft á svona tilburði lengur. Svo bakkaði hún út fyrir mig án nokkurra vandræða.

Þessi áhersla námskeiðsins og sem einnig virðist oft ríkja í umræðum um annað en ökuhæfni, finnst mér lýsa gamaldags sjónarmiðum sem eiga ekki við í samfélaginu í dag. Þessi munur kynjanna er oft að miklu leyti byggður á einskonar fordómum, en ekki hörðum rökum. Því finnst mér ekki rétt að fólki sé alltaf skipt upp í hópa eftir því hvernig kynfæri það hefur, konur gera alltaf svona, karlar alltaf hinsegin. Eina leiðin til að hafa fullt jafnrétti kynjanna er að hætta að spyrja um kyn. Eða er það ekki?

Sumarfrí

Á þessum tveim vikum síðan ég skrifaði síðast hefur ýmislegt gerst. Maður er búinn í prófum, kosningarnar eru afstaðnar, og þjóðin byrjuð að jafna sig á söngvakeppninni. Eftir að hafa fengið þá ánægjulegu niðurstöðu að ég hafi náð öllum prófunum, hef ég verið að njóta þess að vera í fríi, áður en ég byrja að vinna á Róló í lok mánaðarins. Meðal þess sem ég hef gert er að sofa út, fara nokkru sinnum í sund og taka eina og eina kvöldvakt á Little Caesars. Það er megavika núna svo að enginn kemur. Reyndar kemur eiginlega aldrei neinn þangað. Annað markvert er gerst hefur er umtalsvert tölvuhangs, horft hefur verið á nokkrar vel valdar bíómyndir og annað áhugavert sjónvarpsefni. Ég hef bara verið að hafa það gott í hinni mestu leti. Í kvöld ætla ég jafnvel í bíó, og svo er fundur hjá breytöndunum framundan. Meira um það síðar.

Heilsusamlegur Mánudagur - Langdreginn Köngulóarkarl

Mánudagur. Ég byrjaði daginn á skál af hafragraut, og fór svo beint í alveg hreint frábært stærðfræðipróf, sem snerist um markgildi, könnun falla, afleiður og ýmis aðra skemmtilega hluti. Við skulum sjá til hvernig útkoman úr því verður, sjálfur er ég alls ekki viss. Til að hressa mig svo aðeins við fór ég beint í líkamsrækt og sund niðrí suðurbæjarlaug. Afar hressandi. Svo notaði ég mitt vikugamla ökupróf, til að fara í bíltúr, og kíkti á Andra félaga minn í leiðinni. Eftir miðdegi fór ég svo í hjólatúr með Pabba og Olgeiri litla bróður. Það var einnig mjög hressandi. Í matinn var svo sopinn lax, afar bragðgóður. Sló þó ekki við nýveidda silungnum hans Olgeirs sem við átum í gær.

----------

Um kvöldið brá ég mér inn í kvikmyndahús Smáralindar og sá hina nýútkomnu mynd um Köngulóarkarlinn. Ég var aldrei sérstaklega hrifinn af þessum myndum, og þessi var engin undantekning. Manni fannst eins og öll vandamál þessarar myndar hefðu getað verið leyst ef persónurnar hefðu sest niður í 5 mínútur og spjallað saman án þess að vera bara með klisjukennt væl. Í staðin tóku þær yfirleitt upp á því að reyna að drepa hvor aðra með allskyns bellibrögðum, en sættust svo í endan, þegar búið var að leggja hálfa Nýju Jórvík í rúst. Því fannst mér myndin oft langdregin á köflum, sama hvort var í flottu bardögunum, sem maður skildi aldrei alveg af hverju var verið að há, eða í innhaldslitlum samræðunum. Boðskapur myndarinnar var svo sem ágætur, maður hefur alltaf val, og getur gert góða hluti ef maður vill það. En þegar maður sá svo Spidermann sveifla sér stoltur framhjá Ameríska fánanum varð þetta allt hálf dúbíus aftur...spidflag


nei heyrðu, smá mistök, þú ert víst ekkert að deyja!

Þegar ég las þessa frétt fór ég ósjálfrátt að brosa, þó að auðvitað væri það alveg hræðilegt að lenda í svonalöguðu.Blush En hvað ætli manninum hafi gengið til? Passa uppá að enginn myndi erfa neitt eftir sig?

Ætli maður myndi nú reyndar ekki gera eitthvað svipað ef maður vissi að lífið væri að verða búið eftir svona stuttan tíma. Nýta tímann í að gera hlutina sem mann langaði alltaf að gera. Reyndar ætti maður eiginlega að gera það, þrátt fyrir að maður væri ekki að fara deyja eftir nokkra mánuði. Bara ekki ganga jafn langt og John Bandrick og hætta að borga af húsnæðisláninu sínu.Halo




mbl.is Dauðvona sjúklingur sem eyddi aleigunni var ranglega greindur með krabbamein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjörnufræði, og það að breyta heiminum.

Í morgun fór ég í stjörnufræðipróf, og ég held að það sé óhætt að segja að það hafi gengið mjög vel. Ég mundi reyndar ekkert hvað Van-Allen beltið hét, en það var ein af mjög fáum villum! Eftir á brá ég mér í sund, og synti 500 metra! Það var ekkert smá hressandi, ég býst við því að gera meira af þessu í sumar. Ég fer sáttur inn í helgina með niðurstöðu vikunnar, en við taka þó engin fagnaðarlæti, ...stærðfræði próf er framundan. Og ég get fullyrt að mér mun ekki ganga eins vel í því. Ég býst nú ekki við því að falla, en það er allavega ljóst að ég þarf að bæta upp fyrir áhugaleysið á önninni, og læra eins og vitleysingur nú um helgina.
changmaker
Við í Breytöndunum áttum mjög góðan netfund nú í gærkvöldi, og ætlum að fara að gera eitthvað að viti! Breytendur er lítill hópur framhaldskólanema (að mestu leyti) með frekar langa sögu, en allt of stutta ferilskrá. Við erum nú að vinna í því að koma norsku samtökunum Changemaker almennilega á koppinn hér á landi. Changemaker eru hugsuð sem samtök ungs fólks sem vill hafa rödd, án þess að ganga í stjórnmálaflokk. Þau eru undir verndarvæng hjálparstarfs kirkjunnar í Noregi, en eru þó óháð því að flestu leiti. Skoðanir meðlima Changemaker þurfa ekki að passa skoðunum Kirkjunnar. Engin skylda er gerð um trú þeirra er í samtökin ganga, og starfið er ekki á trúarlegum forsendum. Frekar siðferðislegum. Aðal markmið samtakanna er neflinlega að útrýma fátækt úr heiminum, og berjast fyrir málum sem annars fá ekki nóga athygli. Við Breytendurnar höfum verið að baxa í þessu í nokkurn tíma, verið með staka kynningu á fairtrade vörum hér og þar, en aldrei komið nógu miklu í verk. Nú í sumar eftir prófin á hinsvegar að setja á fullt, og við erum með ýmislegt í burðarliðnum. Við getum breytt heiminum! Ég fer víst að vinna í því ásamt fleirum að koma upp heimasíðu strax eftir prófin! Bara þrjú eftir...

Af allskyns prófum

Það hefur ýmislegt gerst síðan í síðustu færslu. Á mánudagsmorgun klukkan 06:40 hringdi vekjaraklukkan, þrátt fyrir að enginn skóli væri þann dag. Það var sérstaklega erfitt að vakna, en taka verður tillit til þess að ég hafði brugðið mér í kvikmyndahús kvöldið áður, og ekki komið heim fyrr en eftir miðnætti. Ég henti mér í sturtu, og fékk mér morgunkorn. Tímanlega klukkan 07:30 stoppaði svartur Benz fyrir utan húsið mitt, ég stökk út, settist í bílstjórasætið og keyrði af stað. Það vottaði fyrir örlitlu stressi í huganum, og það sást á aksturslaginu. Ég var að fara í verklegt ökupróf. Nú þið þurfið ekki að spurja að þvi, ég náði. Fékk reyndar alveg 7 mínusa fyrir að keyra of hægt, en þetta slapp allt saman. Það hlaut líka að gera það, ég er búinn að vera í æfingaakstri í yfir ár. Flestum finnst ekki lengur fyndið hvað ég er búinn að vera lengi að þessu, en ég er nokkuð sáttur sjálfur. Ég náði þó allavega markmiðinu, að fá bílprófið 17 ára.Smile

Þetta var reyndar ekkert besti tíminn til að taka svona próf. Þegar maður er nýkominn með leyfið til að fara út í bíltúr, er mjög erfitt að loka sig inni hjá skólabókunum. Þess vegna var ég ekki nógu vel lesinn fyrir íslenskuprófið sem ég tók í morgun. Það gekk samt betur en ég þorði að vona, enda hef ég fylgst vel með í bókmenntasögunni yfir önnina. Framundan er svo stjörnufræðipróf á föstudag, og nú ætla ég mér að hemja mig í bíltúrunum, og reyna að læra almennilega undir það. Enda held ég að Mamma sé orðin svolítið þreytt á því að lána mér skódann sinn. Blush En ætli ég renni nú ekki til Stebba bróður á eftir og sjái Manchester United – AC Milan.Wink



Höfundur

Þorsteinn Valdimarsson
Þorsteinn Valdimarsson
Hafnfirðingur, heimspekinemi, breytönd, kvikmyndanörd og nörd svona almennt séð
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

33 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband