Leita í fréttum mbl.is

Mín RIFF - partur 3

Ef einhvern myndi langa til þess, þá má:
sjá part 1 hér
og part 2 hér

Unmade beds
Fjallar um hústökufólk í London, stúlku frá París og strák frá Spáni. Stelpan lendir í ástarsambandi við strák sem hún veit ekki einu sinni hvað heitir og ákveður að halda því þannig, spánverjinn hefur upp á breskum föður sínum sem hefur aldrei haft neitt með hann að gera. Ástarsambandið hjá stelpunni þróast skemmtilega, en samband feðganna misvel. Pabbinn er fasteignasali og strákurinn þykist vera að leita sér að íbúð. Myndin var skemmtileg að sumu leiti, en skyldi frekar lítið eftir hjá mér.

Antoine
Antoine er 5 ára blindur strákur af víetnömskum uppruna sem býr í Montreal. Hann gengur í venjulegan skóla í skólakerfinu þar og fékk að hjálpa einum kennaranum sínum að búa til bíómynd. Í myndinni er hann einkaspæjari, sem keyrir bíl, talar í farsímann sinn og notar míkrófón til þess að uppgötva heiminn í kring um sig og hjálpaði þannig að taka upp hljóðið fyrir myndina. Myndin var einlæg og persónuleg, þó maður vissi aldrei alveg hvað væri planað, og hvað ekki, hversu mikið var leikið og hversu mikið ekki. En best er að líta á myndina sem einhverskonar heimildamynd um ævintýri barnaleiksins.

Victims of Our Riches
Fjallar í stórum dráttum á muninn á Afríku og Evrópu, ríkidæmið og fátæktina. Tekin eru viðtöl við fólk sem reynt hafa að smygla sér til Evrópu og mistekist, en einnig við aðstandendur þeirra sem tókst ætlunarverkið. Reynslusögurnar sem sagt er frá eru sterkar og um leið er sterk ádeila á stöðu heimsins í dag. Fín heimildamynd sem vill vera beitt en hefur kannski ekki alveg nógu margar tennur, þar sem lítið annað er sýnt en viðtöl.

Daytime Drinking
Gamanmynd frá Suður-Kóreu um mann sem er í ástarsorg eftir að kærastan hans hættir með honum. Félagarnir ákveð eitt kvöldið yfir öli að fara í smá ferð með hann daginn eftir, en þegar komið er á hólminn er hann sá eini sem mætir. Eftir fylgja sko ýmisleg ævintýri, flest stórskemmtileg fyrir áhorfendurnar. Sennilega fyndnasta myndin sem ég sá á hátíðinni, mæli með henni.

Grace
Var önnur miðnæturmynd hátíðarinnar, sýnd var á undan stuttmynd sem ég missti af. En Grace fjallar um ólétta konu sem missir manninn sinn og fóstrið í bílslysi. Hún ákveður þó að eiga náttúrulega fæðingu, og fyrir eitthvað kraftaverk fæðir hún lifandi barn. Smám saman kemst hún þó að því að þetta er ekki venjulegt barn sem hún eignaðist, sýgur eitthvað annað úr brjóstunum en móðurmjólkina. Myndin var þung og hæg, og ég var of þreyttur eftir fimm mynda törn um daginn til að finnast hún hræðileg. Ekki vel valin miðnæturmynd að mínu mati þrátt fyrir ógeðslega hugmynd, hefði verið betra að hafa eitthvað aðeins fjörugra.

Flickan
Sænsk mynd sem fjallar um stelpu sem er skilin eftir ein heima í húsi upp í sveit yfir sumar þegar foreldrar hennar og bróðir flytja til Afríku. Föðursystir hennar á að vera að passa hana, en stingur fljótlega af með einhverjum manni svo að stúlkan er alveg ein eftir. Hún leikur stundum við eldri stelpur úr nágrenninu og stundum við strák af næsta bæ sem er á hennar aldri. Svo fylgjumst við með hvernig 10 ára stelpu gengur að sjá um sig sjálfa í heilt sumar. Myndin gerist hægt en var samt áhugaverð og skemmtileg að mörgu leyti, og má hrósa krökkunum í aðalhlutverkunum fyrir náttúrulegar og eðlilegar frammistöður.

Stingray Sam
Furðulega skemmtilegur söngva-geim-vestri sem er settur saman úr sex 10. mínútna löngum myndböndum sem gætu allt eins verið gerð fyrir youtube. Cory McCabee, leikstjóri myndarinnar, hefur einmitt sagt að hún sé gerð fyrir skjái af öllum stærðum og gerðum. Þess vegna fannst manni hálfgalið að fara á hana í bíó. En ég meina, ég borgaði bara fyrir passann þannig að ég tapa engu á því. Og eftirá sé ég ekkert eftir að hafa séð hana. Stingray Sam er fyrrverandi fangi, núverandi barsöngvari frá plánetunni Durango. Fyrrverandi félagi hans, Quasar Kid, finnur hann og dregur hann með sér í ævintýri að leita að lítilli stelpu sem var rænt. Myndin er stórskemmtileg með litríkum persónum þó leiknu atriðin séu svarthvít. Inn á milli eru svo "tæknibrelluatriði" sem minna á teiknistílinn hjá Monthy Python. Best af öllu eru þó söngvaatriðin, sérstaklega lagið Fredward. Mæli með að fólk kíki á þetta, allavega fyrsta þáttinn má finna hér: http://www.stingraysam.com/

Dogtooth
Fjallar um grísk hjón sem alið hafa upp börnin sín þrjú í algerri einangrun frá umheiminum. Börnin, strákur og tvær stelpur, eru nú komin yfir tvítugt en hafa aldrei komið út fyrir háu girðinguna sem umkringir húsið þeirra og bakgarðinn. Tilveru þeirra er frá A til Ö stjórnað af foreldrum þeirra og þau vita ekkert um hinn ytri heim. Þegar köttur smyglar sér inn í garðinn er hann umsvifalaust drepinn, og þeim sagt að kettir séu stórhættulegir. Þegar hlustað er á Frank Sinatra syngja Fly me to the Moon á kvöldin er þeim sagt að það sé afi.

Pabbi þeirra er sá eini sem yfirgefur heimilið og fer hann til vinnu alla virka daga. Krökkunum er sagt að maður sé ekki tilbúinn til að yfirgefa heimilið fyrr en önnur augntönnin er dottin úr, og ekki tilbúin til að keyra bíl fyrr en hún vex aftur. Þeim er sögð sagan af eldri bróður þeirra, sem fór út áður en hann var tilbúinn, og getur aldrei komið aftur. Þegar þau halda að enginn sjái til kasta þau mat yfir girðinguna til hans. Planið fer fyrst að fara úrskeiðis þegar pabbinn hefur að taka heim með sér stúlku úr vinnunni til að svala kynferðislegum hvötum drengsins. Þó að myndin sé mjög róleg í framvindu sinni er hún alltaf óþægileg og jaðrar við að vera ógeðsleg. En vissulega áhugaverð, í ljósi þess að við  búum í tilveru þar sem sífellt eru að uppgötvast ný tilfelli á borð við Josef Fritzl eða Natascha Kampusch.

Úff.
Þarna var hátíðinni lokið og ég hafði blendnar tilfinningar. Þetta er í fyrsta skipti sem ég kaupi passa á hátíðina þó áður hafi ég reynt að fara nokkrum sinnum. Eftir þetta törn, 24 myndir á 10 dögum var ég alveg dauðuppgefinn og feginn að vera búinn, geta farið heim til mín. Sofið í rúminu mínu og hangið í tölvunni minni. Samt var ég alltaf að rekast á myndir og atburði sem ég hefði viljað sjá en missti af. Búninga-sýning í sal 1 á Rocky Horror! Sýning á One Flew Over the Cuckoo's Nest í hátíðarsalnum með Milos Forman viðstaddan! Bíó í sundi! Og fullt af myndum sem ég hefði viljað sjá en einfaldlega komst ekki yfir. En allt í allt var hátíðin hin besta upplifun.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Þorsteinn Valdimarsson
Þorsteinn Valdimarsson
Hafnfirðingur, heimspekinemi, breytönd, kvikmyndanörd og nörd svona almennt séð
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

33 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband