6.10.2009 | 14:31
Mín RIFF - partur 2
Önnur klassík, samt af öðrum toga en Mozart. Fór nú aðallega á þessa af því það er stuð að fara í bílabíó. Það var langt síðan ég hafði séð myndina og var gaman að rifja hana upp. Þó að ég kæmist að því að myndin er nú frekar innihaldslítil hvað varðar söguþráð bæta skemmtileg persónusköpun og svo öll þessi stuðmannalög upp fyrir það. Alltaf gaman að rifja upp klassíkina.
Zombie Girl
Sennilega besta "gerð myndarinnar" mynd sem ég hef séð. Fjallar um Emily, 12 ára stelpu í Austin Texas sem er óttalegur bíómyndaáhugamaður, sækir iðulega nördasýningar í hinu rómaða Alamo Drafthouse og er staðráðin að verða kvikmyndagerðarkona. Og hún er ekkert að tvínóna við hlutina, eftir að hafa gert nokkrar stuttmyndir ríður hún á vaðið með dyggri aðstoð móður sinnar og gerir myndina Pathogen, sem fjallar um vírusfarald sem breytir fólki í lifandi dauða.
En hún kemst fljótt að því að það er ekkert grín að gera kvikmynd. Framleiðslan tekur langan tíma, og tekur sinn toll á aðalleikarana, aðstandendur Emily og aðallega hana sjálfa og mömmu hennar. Hún lendir í ýmsum erfiðleikum, enda er erfitt að skipuleggja dagskrá fyrir heila kvikmynd þegar maður er tólf ára. Og auðvitað þarf hún að vinna heimavinnuna sýna eins og aðrir krakkar líka. En eftir meira en ársframleiðslu tekst henni að ljúka myndinni. Eftir að hafa séð þessa mynd, langar mann ekkert frekar en að geta horft á Pathogen.
Kelin
Er mynd frá Kazakhstan sem gerist í einhverskonar forsögulegum heimi, þar sem menn voru enn í meiri tengslum við náttúruna. Karlar eru sterkir veiðimenn, en konur eru göldróttar, enda búa þær yfir lífskraftinum. Fylgir aðallega sögu tveggja kvenna, ungri konu sem á að fara að gifta og menn keppast um, og eldri konu sem er mamma mannsins sem nær í kvenkostinn. Hún getur talað við úlfa og er voða göldrótt. Svo vindur sagan að sjálfsögðu upp á sig, en án orða, því í myndinni er ekkert talað. Því mun meira er af stunum, gráti hlátri, öskrum, og ýlfrum. Flott gerð mynd með ýmislegt að segja, en pínulítið kjánaleg á köflum, þegar öll samskipti fara fram með stunum.
Burma VJ
Fyrir tveimur árum lokuðu stjórnvöld í Búrma landinu. Þeir ráku alla fjölmiðla úr landi, klipptu á Internetið. Ástæðan voru mestu mótmæli sem herstjórnin þarna hafði upplifað í að minnsta kosti 20 ár. Burma VJ segir söguna af blaðamönnunum sem laumuðust með myndavélar á atburðina og smygluðu upptökunum úr landi. Myndin þótti mér mjög áhrifarík, segir persónulega sögu blaðamannanna og einnig sögu heillar þjóðar. Það er stór munur á að sjá ofbeldi í leiknum myndum og alvöru ofbeldi, og því er hún ekki fyrir viðkvæma. Myndin vakti upp spurningar, hvernig geta hermenn fengið sig til að skjóta á sína eigin þjóð, hvers vegna eru stjórnvöld svona grimm, og hvers vegna skilaði þetta ekki neinu. Því tveimur árum seinna situr sama herstjórnin við völd, byltingin var kæfð niður í fæðingu. Sá myndina tvisvar, einu sinni í norræna húsinu og nokkrum dögum seinna í sjónvarpinu á SVT. RÚV mætti alveg fylgja í fótspor þeirra.
Terra Madre
Ein af fáum myndum hátíðarinnar sem voru bara alls ekki fyrir mig. Ég styð boðskap myndarinnar heilshugar. Hún fjallar um matvælaframleiðendur sem skuldbinda sig til að vinna matvæli á sjálfbæran og ábyrgan hátt, í stað þeirra hátta sem við á vesturlöndum höfum tekið upp síðustu hálfa öldina eða svo. En því miður var myndin bara ruglingslega uppbyggð, var ekki mjög upplýsandi og endaði sem náttúrulífsmynd í garði eins garðyrkjumannsins í svona hálftíma. Kannski var ég eitthvað illa upplagður en mér fannst hún bara leiðinleg.
The Happiest Girl in the World
Rúmensk mynd sem fylgir 16 ára stúlku sem hefur unnið bíl í samkeppni appelsínsframleiðanda. Hún þarf að keyra úr sveitaþorpinu sínu með foreldrum sínum inn til borgarinnar að ná í bílinn, og leika í auglýsingu fyrir appelsínið. Ekki mikið meira gerist í þessari mynd. Framleiðendur auglýsingarinnar vita ekki hvað þeir vilja, og eru óánægðir með að stúlkan sem vann er ekki ofurmódel. Foreldrar hennar reyna á milli taka á auglýsingunni að sannfæra stúlkuna um að eiga ekki bílinn heldur selja strax, svo þau geti byggt við gistiheimilið sitt. Mörgum fannst myndin leiðinleg, og víst gerðist hún hægt, en undirliggjandi var einhver húmor sem tryggði að mér leiddist allavega ekki.
Konur á rauðum sokkum / Umoja
Tvær klukkustundarlangar myndir sem fjalla um kvenréttindabaráttu sýndar saman. Umoja - þorpið þar sem karlar eru bannaðir fjallar um þorp í Kenía þar sem konur sem hlaupist hafa úr skipulögðum hjónaböndum og/eða verið fórnarlömb kynferðisofbeldis flýja til að stofna nýtt líf. Þar reka þær menningarsetur og gengur bara vel án karlanna. Sagt er frá tilurð þorpsins og átökum sem orðið hafa í kring um það, en karlarnir eru margir ekki sáttir með að það gangi svona vel. Konur á rauðum sokkum fjallar um sögu Rauðsokkuhreyfingarinnar rómuðu, og gerir það á skemmtilegan og líflegan hátt, með viðtölum við konur sem komu að hreyfingunni úr ýmsum áttum. Myndin fer vel yfir sögu og sýnir hve mikið samfélagið hefur í rauninni breyst síðan á áttunda áratugnum, en líka að við eigum alltaf að líta gagnrýnum augum á samtímann til að sjá hvort það er ekki eitthvað sem má bæta í samfélaginu, sérstaklega varðandi stöðu kynjanna en líka aðra þætti. Að vera sáttur við allt eins og það er getur verið hættulegt, og hindrar oft framþróun í rétta átt.
Mid August Lunch
Yndisleg lítil ítölsk mynd, um miðaldra mann sem býr einn með aldraðri móður sinni. Hannskuldar leigusalanum sínu margra mánaða leigu, en fær tilboð þess efnis að gæta aldraðar móður hans yfir einhverja ítalska hátíðisdaga og skuldirnar falli niður. Hann fellst á það, en fljótlega biðja fleiri kunningjar hans um sama greiða, og hann endar með fjórar gamlar konur í pössun. Það sem eftir fylgja eru ævintýri í léttum dúr, konunum kemur misvel saman, og hafa hver sína sérþörfina, með mataræði og lyfjagjafir, en einnig bara sjónvarpsáhorf. Myndin var stórskemmtileg, en mér þótti hún þó ekki alveg jafn skemmtileg og sumum í salnum, sem gerðu þetta á ítalskan máta (geri ég ráð fyrir) og höfðu rauðvínsglösin með sér inn.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.